Skilar minnisblaði í dag – útlit fyrir tilslakanir að óbreyttu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mun skila Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum að sóttvarnaaðgerðum næstu vikna í dag. Núverandi reglugerð gildir út fimmtudaginn 15. apríl og mun ný reglugerð taka gildi á föstudaginn.

Þórólfur kveðst ánægður með stöðuna þar sem aðeins eitt smit greindist innanlands í dag og var sá einstaklingur í sóttkví við greiningu. Hann setur þó þann fyrirvara á að færri sýni voru tekin í gær en undanfarna sólarhringa. 

Vonast til að geta slakað

„Þetta hefur gengið ágætlega. Við sögðum strax þegar við byrjuðum á þessum hörðu aðgerðum fyrir þremur vikum að við værum að vonast til þess að við myndum ná góðum tökum strax á þeim hópsýkingum sem voru í gangi og mér sýnist það vera að ganga eftir. Sem þýðir að við getum viðhaft þessar takmarkanir styttra en við gátum gert áður. Mér sýnist það geta gengið eftir að einhverju leyti,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is í dag. 

Spurður hvort hann sjái fram á tilslakanir segist Þórólfur vonast til þess „nema eitthvað stórkostlegt breytist á næstu dögum“.

Fimm smit greindust við landamærin en átta vélar komu til landsins í gær. „Þetta sýnir að það er mikilvægt að hafa góða stjórn á landamærunum, annars fáum við þetta bara inn í landið,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert