Þrjátíu bílar við gosstöðvar í morgun

Eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesskaga.
Eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við reynum að leiðbeina fólki eins og við getum. En það eru alltaf einhverjir sem annaðhvort hundsa fyrirmæli eða átta sig ekki á því að þeir eru á hættulegu svæði,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. 

Um þrjátíu bílar voru við gosstöðvarnar snemma í morgun en gossvæðið var rýmt um miðnætti í gærkvöldi. Hjálmar segir málið ekki snúast um lokanir og opnanir heldur á hvaða tíma björgunarsveitirnar geta boðið upp á lágmarksöryggisþjónustu. Á öðrum tímum sé fólk á eigin ábyrgð á svæðinu og viðbragð getur tekið lengri tíma.

Björgunarsveitir eru með viðveru á svæðinu frá klukkan 12 á hádegi til 12 á miðnætti.

Hæg austanátt er og veður til útivistar gott. Hjálmar býst við að mæting verði nokkur í dag. Í tilkynningu frá almannavörnum er bent á að loftgæði á svæðinu séu ekki góð og takmarkað eftirlit viðbragðsaðila er á svæðinu. Fólk sem ætlar að heimsækja gosstöðvarnar er því hvatt til að gæta ýtrustu varúðar.

Börn berskjaldaðri fyrir gasmengun

„Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því berskjölduð fyrir skaðlegum lofttegundum. Þeir sem klæða sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera,“ segir í tilkynningu lögreglu á Suðurnesjum.

Þá segir að búast megi við gasmengun vegna eldgossins á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælum og fara eftir leiðbeiningum frá almannavörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert