20 manna fjöldatakmörkun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

20 manna fjöldatakmörkun verður hér á landi samkvæmt nýjum sóttvarnareglum. Íþróttir verða heimilar fyrir alla. Þar á meðal verða sundlaugar og líkamsræktarstöðvar opnaðar á nýjan leik. 

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn að loknum ríkisstjórnarfundi. 

„Við erum að leggja til tilslakanir innanlands á sóttvarnaaðgerðum. Það er í samræmi við það sem við vildum sjá þegar við tókum hressilega í handbremsuna fyrir þremur vikum,“ sagði Svandís.

Heimiluð verða 50% af þeim fjölda sem er venjulega heimilaður í sundlaugum og á líkamsræktarstöðvum. 

Óbreyttar reglur verða í skólum nema að fjarlægðarreglan fer niður í einn metra. 

Krár mega vera opnar til klukkan 21 á kvöldin og klukkan 22 þarf að vera búið að rýma húsnæðið.

Í sviðslistum mega 50 manns vera á sviði og 100 í hólfum. 

Nánari upplýsingar um breyttar sóttvarnareglur má finna á vef stjórnarráðsins.

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir skilaði Svandísi minn­is­blaði með til­lög­um að sótt­varnaaðgerðum næstu vikna í gær. Ný reglugerð mun taka gildi á fimmtudaginn.

Í samtali við mbl.is sagðist hann vona að hægt yrði að slaka á aðgerðum. 

Þrjú smit greindust innanlands í gær og voru allir þeir sem greindust utan sóttkvíar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina