Æfir sig í bílskúrnum

Kristinn hjólar, lyftir ogteygir í bílskúrnum heima.
Kristinn hjólar, lyftir ogteygir í bílskúrnum heima. Ljósmynd/Aðsend

Kórónuveirufaraldurinn hefur riðlað mörgu og hefði veiran ekki skollið á heimsbyggðinni í fyrra væri Keflvíkingurinn Kristinn Óskarsson búinn að dæma yfir 1.000 leiki í efstu deild karla í körfubolta. Hann hefur dæmt 997 leiki í deildar- og úrslitakeppninni, samkvæmt samantekt Rúnars Birgis Gíslasonar, eftirlitsmanns FIBA, og bíður spenntur eftir því að keppni verði leyfð á ný. „Ég trúi því að við komumst á gólfið á ný og náum að ljúka mótunum með einhverjum hætti, get varla beðið eftir að byrja aftur,“ segir hann.

Samkomutakmarkanir gera dómurum í íþróttum lífið leitt. Þeir verða að halda sér í formi við óvenjulegar aðstæður, hafa ekkert húsnæði til æfinga fyrir utan heimili sín og dómarar í boltaíþróttum fá enga leikæfingu frekar en leikmenn. „Dómarar fara út að hlaupa en veðrið hefur verið leiðinlegt að undanförnu og ekki bætt stöðuna,“ segir Kristinn, sem hefur útbúið sér æfingaaðstöðu í bílskúrnum sínum til að halda sér við.

Dæmdi 18 ára í efstu deild

Keflavík hefur lengi verið Körfuboltabærinn með stóru K-i og Kristinn æfði og lék í yngri flokkum ÍBK. Hann byrjaði að dæma í fjölliðamótum yngri flokka, tók dómarapróf 1986, dæmdi fyrsta leik sinn í efstu deild kvenna árið eftir, þá 18 ára, og fyrsta leikinn í meistaraflokki karla 1988. „Ég hef því dæmt á fimm áratugum,“ bendir hann á, en samkvæmt fyrrnefndri samantekt hefur hann dæmt 1.887 leiki á vegum KKÍ. Rögnvaldur Hreiðarsson hefur dæmt 2.027 leiki, Sigmundur Már Herbertsson 1.990 leiki og Jón Otti Ólafsson dæmdi 1.673 leiki.

Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur verið ótrúlega gaman allan tímann,“ segir Kristinn um dómaraferilinn, en hann hefur m.a. dæmt 197 leiki í efstu deild kvenna og 30 í úrslitakeppninni, 12 bikarúrslitaleiki karla og fimm bikarúrslitaleiki kvenna, og 82 FIBA leiki í 19 löndum, þar sem lið frá 42 þjóðum hafa keppt.

Hann tiltekur þrjú atriði sem haldi sér við efnið. „Í fyrsta lagi finnst mér ég vera að gera gagn. Í öðru lagi tel ég mig enn vera í framför. Það gætu verið hugarórar gamals manns, en mér finnst ég vera betri í ár en í fyrra. Það mikilvægasta er samneyti við allt þetta góða fólk, vini mína í dómgæslunni og fólkið í hreyfingunni. Auðvitað hefur stundum gefið á bátinn en það er hluti af þessu og það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í íþróttinni á efsta stigi, kominn á sextugsaldur.“

Kristinn var íþróttakennari í áratug, sneri sér síðan að mannauðsmálum og er nú mannauðsstjóri hjá Reykjanesbæ. Hann er alþjóðlegur leiðbeinandi dómara með það hlutverk að deila fræðslu frá FIBA. Í mörg ár hefur hann verið nokkurs konar þjálfari dómara, hvatt þá áfram og sett markmiðin. „Þar fæ ég útrás fyrir kennaraelementið í mér,“ segir orkuboltinn og bætir við að hann leggi alltaf áherslu á gæði umfram magn. „Mér finnst alveg nóg að dæma 70 til 80 leiki á ári. Ég fagna hverjum leik og get ekki hætt við þessar aðstæður, vil hætta að loknu heilu eðlilegu tímabili og stefni því á að minnsta kosti eitt ár í viðbót.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert