Bæti umtalsvert við reikningana

„Hversu víðtækt þetta er og hversu háar upphæðir þetta eru …
„Hversu víðtækt þetta er og hversu háar upphæðir þetta eru vitum við ekki,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn heilbrigðisráðherra liggur það fyrir að einhverjir sjálfstætt starfandi læknar bæti umtalsvert við reikninga, umfram gjaldská ríkisins, og láti sjúklinga greiða fyrir það. Óvitað er hversu víðtækt vandamálið er en drög að breytingum á reglugerð um end­ur­greiðslu kostnaðar vegna þjón­ustu sjálf­stætt starf­andi sér­greina­lækna sem starfa án samn­ings við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands miða að því að stemma stigu við þessu.

Formaður Læknafélags Reykjavíkur sagði í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í dag að ef drögin verði að veruleika virðist heilbrigðisyfirvöld ætla að beita sjúk­ling­um fyr­ir sig og svipta fjölda þeirra sjúkra­trygg­inga­rétt­in­um. Fel­ur breyt­ing­in meðal ann­ars í sér að þeir lækn­ar sem rukka auka­kostnað sam­kvæmt gjald­skrá muni ekki njóta kostnaðarþátt­töku Sjúkra­trygg­inga Íslands.

„Mjög langt seilst“ hjá for­manni Lækna­fé­lagsins

„Málið er í samráðsgátt núna, það er sem sagt ekki búið að staðfesta breytingu á reglugerð. Það sem við erum að gera þarna er að leggja til að við reynum að stemma stigu við því að læknar séu sjálfir að bæta við reikningana umtalsvert og láta sjúklinga borga. Við erum þarna líka að leggja til að fara út í meira tilvísunarkerfi og fleiri þætti sem lúta að þessari þjónustu. Ég vænti þess að fá umsögn frá Læknafélagi Reykjavíkur eins og öðrum hagsmunaaðilum að þessu máli,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um málið.

Svandís segir „mjög langt seilst“ hjá formanni Læknafélags Reykjavíkur að halda því fram að ef breytingin yrði samþykkt yrði fjöldi fólks sviptur sjúkratryggingaréttinum.

„Kjöraðstæður ættu að vera þær að við værum að starfa samkvæmt samningi en nú eru þessir aðilar að innheimta samkvæmt gjaldskrá sem er gefin út af ráðuneytinu. Þá er verið að tryggja endurgreiðslu á grundvelli gjaldskrárinnar. Svo hafa verið brögð að því núna undanfarið og í raun er það mjög algengt, þótt ég hafi ekki fengið nein gögn í hendur um það, að læknar séu að bæta umtalsvert við og rukka sjúklinga um það. Það er náttúrulega ástand sem er mjög erfitt að horfast í augu við að sé viðvarandi staða þannig að ég myndi auðvitað allra helst vilja að þeir gengju til samninga.“

„Liggur fyrir að það sé staðan“

Þyrftuð þið ekki einhver gögn sem styddu þetta?

„Við höfum fengið upplýsingar um það bæði frá Sjúkratryggingum, sjúklingum og frá læknum sjálfum,“ segir Svandís.

Svo það liggur fyrir að einhverjir læknar hafi bætt við reikninga?

„Það liggur fyrir að það sé staðan, en hversu víðtækt þetta er og hversu háar upphæðir þetta eru vitum við ekki.“

Spurð hvort þessi hegðun verði eitthvað rannsökuð segir Svandís:

„Við höfum nú kallað eftir ýmsum upplýsingum án þess að fá þær strax. Ein af þessum kröfum sem við erum að gera í mögulegri breytingu á reglugerð er að vera með kröfu um það að reikningar viðkomandi rekstraraðila liggi fyrir, óháð því hvort samningar séu í gildi eða ekki. Ef við erum að endurgreiða í samræmi við gjaldskrá þurfum við að vita hvaða rekstrarforsendur eru fyrir hendi.“

mbl.is