Bíða með að bólusetja með Janssen

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að beðið verði með að bólusetja með Janssen-bóluefninu þar til frekari upplýsingar berist um hvað sé í gangi. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur lyfja­eft­ir­lit Banda­ríkj­anna mælt með því að notk­un bólu­efn­is­ Janssen við Covid-19 yrði tíma­bundið hætt meðan rann­sakað verður hvort bólu­efnið teng­ist blóðtöpp­um meðal yngra fólks. 

2.400 skammtar af bóluefninu eru væntanlegir til landsins í fyrramálið.

„Það er kannski erfitt að segja nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur, þetta er fyrst og fremst tímabundið meðan menn eru að fá meiri gögn og sjá hvernig staðan er út frá þessum aðgerðum og þessum viðvörunum frá Bandaríkjunum,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Hvort það verður eitthvað til frambúðar eða eitthvað tímabundið það treysti ég mér ekki til að segja. Áhrifin fara alfarið eftir því hvort þetta verði eitthvað til langframa eða hvort þetta verði í stuttan tíma.“

Gæti sett strik í reikninginn

Þórólfur bendir á að ef dreifingunni verði einungis seinkað um stuttan tíma verði áhrifin ekki svo mikil. „En ef menn fara eitthvað að stoppa þetta til lengri tíma þá mun það setja strik í reikninginn hjá okkur,“ segir Þórólfur og bætir við: 

„Ef niðurstaðan verður sú að það verður ekki ráðlagt að nota bóluefnið þá náttúrulega setur það stórt strik í reikninginn.“

Bóluefni Janssen.
Bóluefni Janssen. AFP

Svipaðar aukaverkanir og AstraZeneca

Þórólfur segir að við fyrstu sýn hljómi aukaverkanir Janssen-bóluefnisins svipaðar og aukaverkanir AstraZeneca.

Þórólfur bendir hins vegar á að aukaverkanir af bóluefninu hafi sést í sex einstaklingum af um sjö milljónum sem sé „nú kannski ekkert voðalega há tala, alla vega ekki í fyrstu sýn“.

„En við verðum bara að sjá betur hver niðurstaðan verður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert