Ein samfelld sprunga sem gýs

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur jarðfræðinga frá Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafni Íslands og eldfjalla- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands hefur verið við gosstöðvarnar í Geldingadölum í morgun og fylgist með nýjum gosopum opnast, hvert á fætur öðru.

„Við héldum að þetta væru meiri sprengingar,“ segir jarðfræðingurinn Þóra Björg Andrésdóttir í samtali við mbl.is.

Hún lýsir því hvernig allt í einu búbblaði kvika upp úr þessum nýju gígum. „Við tókum sýni úr hraunrásinni úr nýju gígunum eftir að þeir opnuðust og þá allt í einu opnaðist nýtt í hrauninu og byrjaði að búbbla. Þetta er dásamlegt.“

Talað hefur verið um fjóra nýja gíga, eða gosop, en Þóra segir að allt eins sé hægt að tala um hundrað metra sprungu sem gjósi öll.

„Það er að minnsta kosti samfellt gos á 50 metra kafla. Síðan eru tveir gígar sem erfitt er að greina í sundur og annar þar til hliðar. Þetta gýs eiginlega allt,“ segir Þóra en hraunið úr nýju sprungunni flæðir í suðurátt.

Meistaraverkefni Þóru í jarðfræði fjallaði um hættumat á Reykjanesi vegna eldgosa og því segir hún aðspurð að gosið í Geldingadölum sé að sjálfsögðu eins og jólin fyrir henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert