Hrafnista beri ábyrgð á sínum eigin rekstri

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra segir að Hafnista beri ábyrgð á sínum eigin rekstri og þurfi að uppfylla þá samninga sem rekstraraðilinn hafi skrifað undir. Ríkið, fyrirtæki í velferðarþjónustu og sveitarfélögin hafa þó unnið að því að skoða rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna og telur heilbrigðisráðherra tilefni til að endurmeta þann grunn. 

Eins og mbl.is greindi frá um helgina sagði Hrafnista nýverið upp á fjórða tug starfsmanna. María Fjóla Harðardótt­ir, for­stjóri Hrafn­istu­heim­il­anna, sagði í samtali við mbl.is um helgina að upp­sagn­irn­ar end­ur­spegli erfið rekstr­ar­skil­yrði heim­il­anna, sem rek­in eru með þjón­ustu­samn­ingi við ríkið. Ein­ing­ar­verð, sem fylg­ir hverj­um íbúa, dugi ekki til að standa und­ir kjara­samn­ings­bundn­um launa­hækk­un­um starfs­fólks og óljóst hvernig verði með stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar.

Skilur þú þessar áhyggjur og uppsagnir? 

„Ég ætla ekki að setja mig inn í einstakar ákvarðanir en ég hef alltaf sagt það að ég hef væntingar til þess að við getum stigið einhver skref í áttina að því að treysta þennan grunn betur eftir því sem við höfum betri gögn,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is. 

Fullt tilefni til að endurmeta grunninn

„Hrafnista ber ábyrgð á sínum rekstri og þarf að uppfylla tiltekna samninga sem rekstraraðilar hafa skrifað undir. Hins vegar höfum við verið í sameiginlegri vinnu, bæði fyrirtæki í velferðarþjónustu, sveitarfélögin og ríkið, í því að skoða rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna og ég held að við séum öll samstíga í því að það er fullt tilefni til þess að endurmeta þann grunn,“ segir Svandís.

Hún telur að miklu máli skipti að rekstur hjúkrunarheimila byggi á samningum „þar sem er alveg klárt hvað það er sem ríkið er að fá fyrir fjármagnið og við séum með svona samræmd greiðslumódel bæði fyrir opinbert kerfi og einkaaðila. Með þeim hætti fær almenningur trausta þjónustu fyrir það fjármagn sem við erum að leggja til úr ríkissjóði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert