Hraun renni á endanum yfir gönguleið

Jarðfræðingurinn Þóra Björg Andrésdóttir var á svæðinu í morgun þegar …
Jarðfræðingurinn Þóra Björg Andrésdóttir var á svæðinu í morgun þegar ný sprunga myndaðist. Ljómynd/Þóra Björg

Gossvæðið í Geldingadölum tekur stöðugum breytingum en í morgun opnuðust fjórir nýir gígar, eða ein samfelld 100 metra sprunga. Hraun rennur nálægt annarri gönguleiðinni að gosstöðvunum og mun, með sama áframhaldi, renna yfir endann á henni.

Uppfært kl. 15:55: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar var haft eftir lögreglunni á Suðurnesjum að hraun hefði runnið yfir endann á gönguleið A. Samkvæmt upplýsingum úr aðgerðastjórn virtist hraunið vera á leið yfir gönguleiðina en hefur ekki náð þangað enn, þó það muni ná því á endanum.

Gönguleiðir A og B eru báðar opnar, þar sem fólk getur borið nýja sprungu augum.

Á kortinu má sjá gönguleiðir A og B. Ath. að …
Á kortinu má sjá gönguleiðir A og B. Ath. að myndin er frá því á laugardaginn og nýju gosopin og hraunið frá þeim kemur ekki fram á myndinni. Ljósmynd/Jarðvísindastofnun

Hjálmar Hall­gríms­son, vett­vangs­stjóri hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um, segir eitthvað af fólki á svæðinu og býst við fjölda síðdegis enda veðrið gott og margir spenntir að sjá breytingarnar á svæðinu:

„Um leið og það opnast ný sprunga þurfa allir að koma aftur,“ segir Hjálmar og hlær.

Eins og áður hefur komið fram er nýja sprungan inni á áður skilgreindu hættusvæði en það er þar sem fólk get­ur verið í bráðri hættu vegna skyndi­legra at­b­urða sem geta orðið á gosstöðvum. Inn­an hættu­svæðis­ins er allra mesta hætt­an á opn­un fleiri gossprungna án fyr­ir­vara og því get­ur fylgt skyndi­legt og hratt hraun­flæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hætt­ur sem fylgja fram­rás hrauns og upp­söfn­un­ gass.

Hjálmar segir svæðið öruggt og það væri búið að loka ef það væri ekki talið öruggt. Viðbragðsaðilar séu stöðugt að endurmeta stöðuna og loki með skömmum fyrirvara ef ekki er talið öruggt að vera á gosstöðvunum af einhverjum ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert