Ingvar Árni dæmdur í níu mánaða fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Ingvar Árni Ingvarsson var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í níu mánaða fangelsi fyrir hættulega árás með skammbyssu. Hleypti hann af Ruger-skammbyssu út um glugga á heimili sínu í átt að tveimur mönnum sem leituðu skjóls á bílastæði fyrir utan heimili Ingvars. 

Árásin átti sér stað að morgni laugardagsins 9. mars 2019. Þá var Ingvar einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslum sínum 214,8 grömm af amfetamíni, 26,63 grömm af kókaíni, 2,42 grömm af alsælu og 62 millilítra af testósteron-stungulyfi. Á heimilinu fundust jafnframt íblöndunarefni og lyf. 

Þá fundust á heimili Ingvars afsöguð haglabyssa og skammbyssa auk 56 haglaskota og 22 tómar patrónur en lögreglan fann og haldlagði vopnin við húsleit í maí 2018.

Málið var meðal annars rannsakað sem meint tilraun til manndráps og sætti Ingvar gæsluvarðhaldi á tímabili frá 9. mars 2019 til 27. sama mánaðar við rannsókn málsins.

Langur sakaferill 

Ingvar Árni á að baki langan sakaferil. Var hann meðal þeirra sem voru dæmdir í stóra fíkniefnamálinu svokallaða frá árinu 2000. Þá var hann dæmdur í fyrra í 60 daga fangelsi fyrir hótanir og fleira.

Ingvar Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2011 fyrir að hafa árið 2009 haldið sambýliskonu sinni nauðugri, slegið hana svo hún féll fram af svölum, hótun og tilraun til fjárkúgunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert