Janssen ekki í dreifingaráætlun

AFP

Von er á 2.400 skömmtum af Janssen-bóluefni eldsnemma í fyrramálið að sögn Júlíu Rósar Atladóttur, framkvæmdastjóra Distica, sem sér um dreifingu á bóluefninu. Skammtarnir eru líklega farnir af stað til landsins.

En líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur afhendingu bóluefnis Janssen til Evrópu verið seinkað.

Júlíu finnst því líklegt að Distica geymi bóluefnið þangað til frekari fyrirmæli berist frá sóttvarnalækni og að það sé ekki á dagskrá Distica að dreifa bóluefninu strax.

Aðspurð segir Júlía bóluefnið ekki hafa verið í dreifingaráætlun sóttvarnalæknis og þetta komi því ekki til með að hafa mikil áhrif.

Þá segist Júlía ekki vita hversu lengi eigi að fresta dreifingu bóluefnisins og að engin tilkynning þessi efnis hafi borist, hvorki frá Lyfjastofnun Evrópu né Johnson & Johnson sem framleiðir Janssen-bóluefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert