„Náttúran ræður hérna á Íslandi“

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Ný sprunga sem myndaðist á gossvæðinu í Geldingadölum í morgun er innan skilgreinds hættusvæðis en almannavarnir og vísindamenn funduðu vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi í morgun. 

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um segir að áfram gjósi í sömu línunni. Svæðið sé allt þversprungið og kvikan leiti einfaldlega að auðveldustu leiðinni upp.

Skilgreinda hættusvæðið er þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndi­legra at­b­urða sem geta orðið á gosstöðvum. Inn­an hættu­svæðis­ins er allra mesta hætt­an á opn­un fleiri gossprungna án fyr­ir­vara og því get­ur fylgt skyndi­legt og hratt hraun­flæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hætt­ur sem fylgja fram­rás hrauns og upp­söfn­un­ar gass.

Rögnvaldur segir atburði morgunsins ekki breyta neinu um aðgengi fólks að gosstöðvunum í dag. Svæðið er vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá hádegi til miðnættis. Lokað er inn á svæðið klukkan 21.00 í kvöld, rýming hefst tveimur klukkustundum síðar og verður lokið fyrir miðnætti.

Frá gosstöðvunum í morgun.
Frá gosstöðvunum í morgun. Ljósmynd/Þóra Björg

Rögnvaldur segir enn fremur að áfram megi búast við því að frekari sprungur myndist, innan þess ramma sem sérfræðingar hafi skilgreint. „Við gefum öðrum svæðum auga líka en við fáum borgað fyrir að vera svartsýn og reiknum alltaf með einhverju óvæntu. Náttúran ræður hérna á Íslandi.“

Börn­um, öldruðum, barns­haf­andi kon­um og þeim sem hafa und­ir­liggj­andi hjarta- og lungna­sjúk­dóma er ráðið frá því að fara á gosstöðvarn­ar ef ein­hver loft­meng­un er yf­ir­vof­andi. Einnig get­ur verið yf­ir­borðsmeng­un í jarðvegi, snjó og yf­ir­borðsvatni vegna þung­málma og upp­söfn­un­ar flúors (F). Yf­ir­borðsmeng­un er mest í næsta ná­grenni við gosstöðina.

Í dag er út­lit fyr­ir sunn­an 3-8 m/​s og berst þá gasmeng­un­in til norðurs, einkum yfir Vatns­leysu­strönd og gæti þar náð styrk sem er óholl­ur fyr­ir viðkvæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert