Stærri skref í afléttingum til umræðu

„Ég vona auðvitað að sumarið verði gott fyrir okkur Íslendinga …
„Ég vona auðvitað að sumarið verði gott fyrir okkur Íslendinga og þau fyrirtæki sem eru að reyna að lifa af hér í erfiðu umhverfi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innan ríkisstjórnarinnar er til umræðu hvort tímabært sé að taka stærri skref í afléttingum hvað varðar aðgerðir vegna Covid-19, að sögn ferðamálaráðherra sem segir samtalið ganga vel. Tilslakanir á núverandi aðgerðum taka gildi á fimmtudag.

Með þeim mun m.a. 20 manns vera heimilt að koma saman í stað 10 áður. Þá verður heimilt að opna heilsuræktarstöðvar og  sundlaugar á ný.

„Við erum á réttri leið og þessar tilslakanir eru góðra gjalda verðar og skipta máli. Svo tökum við næstu skref samhliða því sem við bólusetjum stærri og stærri hópa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Er kominn tími á að taka enn stærri skref í afléttingum?  

„Það er til umræðu inni í ríkisstjórn. Það samtal gengur vel,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir hún að eining hafi ríkt innan ríkisstjórnarinnar um þær tilslakanir sem tilkynntar voru í dag og taka gildi á fimmtudag.

Síðasta árið hafa erlendir ferðamenn verið nokkuð sjaldséð sjón hér …
Síðasta árið hafa erlendir ferðamenn verið nokkuð sjaldséð sjón hér á landi en það gæti breyst með aukinni útbreiðslu bólusetninga á heimsvísu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stækkandi hlutfall bólusettra ferðamanna

Nú líður að sumri og bíða mörg ferðaþjónustufyrirtæki þess að straumur erlendra ferðamanna hingað til lands hefjist að nýju. Spurð hvort það sé ljóst að sumarið verði aftur lélegt, eins og í fyrra, hvað varðar fjölda erlendra ferðamanna segir Þórdís:

„Ég held að það sé ekki útséð um það. Við sjáum alveg að það mun fara mjög hægt af stað og við erum auðvitað bundin af því áfram, hér eftir sem hingað til, hver staðan er á faraldrinum og hvernig löndum gengur að bólusetja. Svo eru alltaf þessir óvissufaktorar um einhver afbrigði og slíkt en við sjáum líka að af þeim gestum sem eru að koma er stækkandi hlutfall fólks sem er bólusett þannig að við verðum bara aðeins að sjá hvernig því vindur fram. Ég vona auðvitað að sumarið verði gott fyrir okkur Íslendinga og þau fyrirtæki sem eru að reyna að lifa af hér í erfiðu umhverfi.“

Umræða um aðgerðir á landamærum í gangi

Þarf að breyta fyrirkomulaginu á landamærunum ef við ætlum að fá betra sumar fyrir ferðaþjónustuna?

„Sú umræða er að eiga sér stað inni í ríkisstjórn. Það kemur bara í ljós hvernig það mun líta út en við erum auðvitað með ákveðnar reglur núna varðandi fólk með til að mynda mótefnavottorð og bólusetningavottorð og þá breytir það stöðunni,“ segir Þórdís.

Hún segir að það sé nú til umræðu innan ríkisstjórnarinnar að gefa aftur út ferðagjöf til íslenskra ríkisborgara í formi gjafabréfs sem fólk getur notað t.d. á ferðamannastöðum, veitingastöðum og víðar.

„Það er eitt af því sem við erum að fjalla um inni í ríkisstjórn og það mun skýrast á allra næstu dögum hvernig verður með hana,“ segir Þórdís sem telur að reynslan af útgáfu ferðagjafarinnar í fyrra hafi verið góð. „Bæði fyrir Íslendinga sem nýttu hana og fyrir atvinnulífið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina