Einn á móti milljón ekki algeng aukaverkun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Ómögulegt er að segja til hve löng bið verður á því að bólusetningar með bóluefni Janssen hefjist eða hvort þær hefjist yfir höfuð. 2.400 skammtar af efninu komu til landsins í morgun en beðið er með notkun þess á meðan rann­sakað er hvort bólu­efnið teng­ist sjald­gæfri teg­und blóðtappa.

„Þetta er nýkomið fram og við erum að bíða eftir frekari upplýsingum, bæði frá Bandaríkjunum og Lyfjastofnum Evrópu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Bóluefnið er ólíkt öðrum efnum gegn veirunni því einungis þarf eina sprautu af því, ekki tvær.

Greint var frá því í gær að sex konur á aldrinum 18 til 48 ára hefðu fengið blóðtappa en þær veiktust 6-13 dög­um eft­ir að hafa verið bólu­sett­ar með bólu­efni Jans­sen í Bandaríkjunum.

„Þetta er ekki há tíðni; sex tilfelli af sex eða sjö milljónum bólusetninga. Hvort það er eitthvað annað í þessu sem ekki hefur verið komið fram þarf að skoða. Einn á móti milljón er nú ekki algeng aukaverkun, sérstaklega ef maður horfir til aukaverkana af völdum covid sem eru margfalt algengari og dauðsföll algengari, jafnvel í yngri aldurshópum,“ segir Þórólfur.

Hann segir miklu áherslu lagða á bólusetningarnar og mikil umræða og fréttir tengdar þeim, skiljanlega. 

Janssen-bóluefnið frá Johnson & Johnson.
Janssen-bóluefnið frá Johnson & Johnson. AFP

„Það þarf að skoða allar svona upplýsingar og fréttir í víðara samhengi. Ekkert sem við gerum er án aukaverkana. Ef við viljum ekki bólusetja þá eigum við hættu á að fá covid með sínum alvarlegu aukaverkefnum. Stundum snýst þetta um að velja og hafna og taka það sem er með mun minni áhættu,“ segir Þórólfur sem vonast til þess að niðurstaðan verði sú að hægt verði að hefja bólusetningar með bóluefni Janssen innan tíðar.

Eingöngu dreifingaáætlun frá Pfizer út júní

Sóttvarnalæknir segir erfitt að segja til um nákvæmlega hvenær bólusetningar 60 ára og eldri og fólks með undirliggjandi sjúkdóma klárast. Það fari eftir framboði á bóluefnum en einungis Pfizer hefur sent frá sér dreifingaáætlun út júní.

„Ef við skoðum eingöngu það þá erum við komin með 260 þúsund skammta í lok júní og erum þá ekki að telja með skammta sem við fáum frá Janssen, AstraZeneca eða Moderna í maí og júní. Talan gæti því hækkað en það er ákveðin óvissa í þessu.“

Þórólfur segir að stefnan sé sú að hægt sé að slaka meira á takmörkunum eftir því sem fleiri eru bólusettir. 

„Það geta verið sveiflur í þessu og svo eru óvissuþættir eins og hversu vel bóluefnin vernda okkur gegn nýjum stofnum veirunnar, er fólk að smitast aftur, valda nýju afbrigði meiri veikindum hjá yngra fólki og svo framvegis,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Við getum ekki sagt nákvæmlega: „þegar það er búið að bólusetja svona marga er hægt að gera þetta.“ Allt fer þetta eftir aðstæðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert