Gosopin í Geldingadölum orðin átta

Starað í glóandi kvikuna. Gígarnir í og við Geldingadali eru …
Starað í glóandi kvikuna. Gígarnir í og við Geldingadali eru nú orðnir alls átta talsins. Þeir hafa allir opnast á línu þeirri er markaði kvikuganginn frá Keili að Nátthaga og olli jarðskjálftum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands flugu ásamt Landhelgisgæslunni yfir gosstöðvarnar í gær og í ljós kom að gosopin eru orðin átta talsins. Fregnir af því bárust í gærmorgun.

Gosopin eru öll á sömu sprungunni, að því er virðist, og sprungan er sem fyrr beint yfir þeim kvikugangi sem ruddi sér inn í jarðskorpuna í febrúar, svo að fjölda jarðskjálfta varð vart víða um suðvestanvert landið.

Hraunrennsli í Geldingadölum er stöðugt, þar renna nú um fimm til átta rúmmetrar af hrauni á sekúndu og hefur það haldist svo í þó nokkurn tíma. Gosopin sem mynduðust í gær höfðu engin áhrif á flæði hraunsins, að sögn sérfræðings á veðurstofunni.

Elstu gígarnir enn þeir stærstu

Gosopin tvö sem mynduðust fyrst eftir að fór að gjósa eru enn þau stærstu á svæðinu. Það sést vel á vefmyndavél mbl.is, þar sem streymt er áfram frá gosstöðvunum.

Greint var frá því á mbl.is í gær að gönguleið A, upp að gosstöðvunum, færi á endanum undir það hraun sem rennur úr þeim gígum sem opnuðust í gær.

Enn eru gönguleiðir A og B opnar en brátt mun gönguleið B standa ein eftir. Frá því fór að gjósa og þar til á miðnætti á þriðjudag höfðu 41.923 lagt leið sína að gosstöðvunum, samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Gosórói hefur minnkað

Sérfræðingur veðurstofu segir við Morgunblaðið að gosórói, skjálftar í kringum gossvæðið sem rekja má til eldvirkni, hafi minnkað í gær. Hann segir að þetta sjáist á öllum mælitækjum veðurstofunnar og að búið sé að fara yfir allar þær mælingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »