Mögulega hinkrað með næstu Janssen-sendingu

Frá fyrstu afhendingu bóluefnis Moderna í húsnæði Distica í Garðabæ.
Frá fyrstu afhendingu bóluefnis Moderna í húsnæði Distica í Garðabæ. mbl.is/Árni Sæberg

2.400 skammtar af bóluefni Janssen komu til landsins í morgun og eru þeir nú í geymslu í frysti hjá fyrirtækinu Distica sem sér um að dreifa bóluefnum gegn Covid-19. Óvitað er hvort sendingin frá Janssen sem á að koma í næstu viku verði stöðvuð. Sendingar af öðrum bóluefnum hafa stækkað jafnt og þétt og munu gera það áfram, miðað við áætlanir. Langmest magn af bóluefnaskömmtum hefur og mun koma frá Pfizer/BioNTech. 

Greint var frá því í gær að sex kon­ur á aldr­in­um 18 til 48 ára hefðu fengið blóðtappa en þær veikt­ust 6-13 dög­um eft­ir að hafa verið bólu­sett­ar með bólu­efni Jans­sen í Banda­ríkj­un­um. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að bíða með notkun bóluefnisins hérlendis sem og víða erlendis. 

„Við sjáum sendingarnar stækka jafnt og þétt“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í morgun að ómögulegt væri að segja til um það hve löng bið verður á því að bólu­setn­ing­ar með bólu­efni Jans­sen hefj­ist eða hvort þær hefj­ist yfir höfuð. 

„Við eigum alveg að geta geymt [bóluefni Janssen] í einhverja mánuði, það er geymt í frysti við 25 gráðu frost,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica. 

Fyrirtækið á von á annarri sendingu af bóluefninu í næstu viku. 

„Svo er spurning hvort það verði eitthvað hinkrað með það eða hvort sú sending kemur. Tíminn verður bara að leiða það í ljós,“ segir Júlía. 

Spurð hvort staðan sé enn sú að bóluefnasendingar séu að stækka segir Júlía svo vera.

„Það koma vikulega sendingar, langmest frá Pfizer, við sjáum sendingarnar stækka jafnt og þétt.“

Eruð þið alveg tilbúin í að sendingarnar stækki meira? 

„Við erum tilbúin í það, við höfum nægilega stóran frysti og mannskap í þetta,“ segir Júlía.

mbl.is