Sennilega gufa frá Sundhöllinni

Sundhöll Reykjavíkur.
Sundhöll Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti fimm útköllum á dælubíla síðasta sólarhringinn, þar á meðal tveimur á næturvaktinni. Í öðru tilvikinu reyndist mögulegur reykur væntanlega vera gufa frá heitu pottunum í Sundhöll Reykjavíkur að sögn varðstjóra í slökkviliðinu. Sundlaugar landsins hafa verið lokaðar í þrjár vikur en munu opna að nýju snemma í fyrramálið.

Í hinu tilvikinu fór brunakerfi í gang vegna eldamennsku í heimahúsi. 

Líkt og oft áður var nóg að gera síðasta sólarhringinn í sjúkraflutningum hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en boðanir á sjúkrabíla voru alls 127 en þar af voru 27 forgangsverkefni og 13 verkefni tengd Covid-19. Af þeim voru þrjú útköll á næturvaktinni vegna Covid.

mbl.is