Telja óhætt að vera í húsnæðinu

Grunnskólinn á Kleppjárnsreykjum.
Grunnskólinn á Kleppjárnsreykjum. Ljósmynd/Guðlaugur Óskarsson

Meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar segir að búið sé að gera allar þær varúðarráðstafanir sem hafi verið lagðar til af sérfræðingum í myglumálum vegna rakamyndunar í grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum. Því sé óhætt að vera í húsnæðinu út þetta skólaár.

„Nú þegar búið er að fá heildarskýrslu um ástand húsnæðisins í hendurnar er hægt að taka ákvörðun til framtíðar um húsnæðið á staðnum. Færanlegar kennslustofur eru væntanlegar fljótlega sem mun koma þeim til góða sem eru á því svæði sem verst er farið og ekki ráðlegt að laga með bráðabirgðaaðgerðum úr því húsnæði,“ segir í bókun meirihlutans á sveitarstjórnarfundi í síðustu viku.

Í bókun Davíðs Sigurðssonar, fulltrúa Framsóknarflokksins, segir hann aðstæðurnar í húsnæðinu vera heilsuspillandi fyrir nemendur og starfsmenn skólans.

„Ekki er hægt að tryggja að þær mótvægisaðgerðir sem farið hefur verið í til að bregðast við ástandinu séu fullnægjandi til að tryggja heilsu þeirra sem þar starfa til framtíðar. Undirrituð telja ekki forsvaranlegt að láta fólk dvelja í húsnæðinu fyrr en búið er að uppræta alla myglu og rakaskemmdir,“ skrifar hann og vitnar í skýrslu Eflu verkfræðistofu um að dvöl í rakaskemmdu húsnæði sé aldrei æskileg til langs tíma.

Einnig kemur fram í bókun hans að mikilvægt sé að  nemendur og foreldrar hafi val um hvort þeir kjósi að skólastarfinu verði komið fyrir í gámum á skólalóð eða hvort þeim verði boðið að sækja nám í grunnskólanum á Varmalandi eða í Borgarnesi.

mbl.is