Gamli Sturlaugur í brotajárn í Belgíu

Mars RE við bryggju í Örfirisey. Skipið fer í brotajárn …
Mars RE við bryggju í Örfirisey. Skipið fer í brotajárn á næstunni. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðgert er að togarinn Mars RE leggi í sína síðustu ferð fyrir mánaðamót, en skipið hefur verið selt í brotajárn til Belgíu. Skipið er betur þekkt sem Sturlaugur Böðvarsson AK og Sigurfari II SH og var smíðað hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts fyrir Grundfirðinga 1981.

Skipaþjónusta Íslands eignaðist skipið fyrir tveimur árum og segir Ægir Örn Valgeirsson framkvæmdastjóri að framundan sé að skipið fari í slipp þar sem það verður meðal annars botnskoðað til að geta fengið nauðsynleg leyfi til ferðarinnar til Belgíu. Hann segir að einn af dráttarbátum Skipaþjónustunnar muni draga skipið.

140 manns unnu í stöðinni

Í Morgunblaðinu 21. júní 1981 segir frá því að Sigurfara II SH, nýjum 450 tonna skuttogara, hafi verið hleypt af stokkunum hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts hf. á Akranesi. „Skuttogari þessi er byggður fyrir þá feðga Hjálmar Gunnarsson og Gunnar Hjálmarsson, Grundarfirði, og er þetta þriðja skipið sem þessi skipasmíðastöð smíðar fyrir þá feðga. Hin eru Siglunes og Haukaberg sem bæði eru 105 lesta. Sigurfari II er 35. nýsmíði skipasmíðastöðvarinnar sem hóf starfsemi 1928 og það stærsta til þessa,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

Í skipasmíðastöðinni unnu þá 140 manns að því er fram kemur í blaðinu. Næstu verkefni voru sögð smíði 280 lesta fiskiskips fyrir Hraðfrystihús Breiðdælinga og einnig hefði verið samið um smíði tveggja eins skipa fyrir Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness hf. og Lárus Guðmundsson, Grundarfirði.

Haraldur Böðvarsson & co á Akranesi keypti togarann snemma árs 1986 og gaf honum þá nafnið Sturlaugur H. Böðvarsson AK 10. Togarinn varð síðan hluti af útgerð HB Granda eftir að Haraldur Böðvarsson hf. og Grandi hf. sameinuðust 1. janúar 2004 undir nafninu HB Grandi. Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti skipið af HB Granda í byrjun febrúar 2019 og fékk það þá nafnið Mars RE 13. Skipaþjónusta Íslands eignaðist skipið fyrir ári.

Verkefni á Grænlandi

Skipaþjónustam hefur tekið að sér þjónustuverkefni á Grænlandi og tengist það námuvinnslu. Þau mál skýrast á næstunni að sögn Ægis. Þá hefur fyrirtækið eignast Kleifaberg RE og verður ákveðið á næstunni hvað gert verður við það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert