Kandídatar heyra sögunni til

Frá útskrift í Háskóla Íslands. Læknanemar sem nú eru á …
Frá útskrift í Háskóla Íslands. Læknanemar sem nú eru á sjötta ári fá lækningaleyfi við útskrift í vor, án þess að fara á kandídatsár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kandídatsárið, og þar með kandídatar, heyra sögunni til með reglugerðarbreytingu sem hefur þegar öðlast gildi. Formaður félags almennra lækna segir breytinguna af hinu góða en með henni munu læknanemar öðlast lækningaleyfi eftir sex ára nám, í stað sex ára náms auk kandídatsárs. Í stað þess kemur svokallaður sérnámsgrunnur, starfsnám sem tekið er á víðu sviði í upphafi sérnáms.

„Við erum mjög ánægð með það hve hratt var brugðist við þegar vinnuhópurinn fór loksins af stað og að þetta sé strax orðið að nýrri reglugerð sem grípur sjötta árið í Háskóla Íslands. Það er náttúrulega frábært að þau muni fá lækningaleyfið þegar þau útskrifast í vor,“ segir Berglind Bergmann, formaður félags almennra lækna.

Bráðabirgðaákvæði á að brúa bilið

Ekki er vitað hvort þeir sérnámslæknar sem hafa lokið kandídatsári sínu muni geta fengið það metið sem sérnámsgrunn erlendis, sérstaklega í Noregi þar sem nýtt kerfi, sambærilegt nýja íslenska kerfinu, tók gildi árið 2019. Á tímabili var útlit fyrir að sérnámslæknar sem stunda nú nám í Noregi þurfi að endurtaka kandídatsár sitt þar.

„Það er nefnilega spurningin. Þetta er aðallega til að leysa vandann fyrir þá sem eru í læknanámi núna. Svo er bráðabirgðaákvæði í reglugerðinni sem tekur til þeirra sem eru núna á kandídatsári og þeirra sem hafa lokið því. Ef maður túlkar það ætti þetta að eiga við um alla þá sem hafa lokið kandídatsári,“ segir Berglind og vísar þá til þess að í bráðabirgðaákvæði reglu­gerðar­inn­ar er bil milli eldra fyr­ir­komu­lags og þess nýja brúað þannig að kandí­dats­ár telj­ist ígildi sér­náms­grunns. Berglind segir ekki ljóst hvort Noregur muni samþykkja það.

Sex ára nám uppfyllir kröfur um gæði og lengd

En gæti þetta styttra grunnnám ekki haft neikvæðar afleiðingar fyrir lækningar á Íslandi?

„Nei, það held ég ekki. Ég held að þetta sé mjög jákvætt. Ástæðan fyrir því að Noregur og Svíþjóð lögðust í þessar breytingar er sú að samkvæmt Evróputilskipun um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi þá uppfyllir sex ára læknanámið alveg þessar kröfur, bæði hvað varðar lengd og gæði. Í raun er verið að segja að hæfi nýútskrifaðra lækna sé hæfilegt til þess að fá lækningaleyfi,“ segir Berglind og bætir við:

„Þess vegna höfum við bent á að okkur finnist ekki eðlilegt að með þessu sé búið að lengja sérnám um 12 mánuði. Mér finnst það ekki augljóst þegar þú ert búinn að segja að fólk hafi meira hæfi núna og geti þess vegna fengið lækningaleyfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert