Lög um skipta búsetu barna afgreidd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í dag frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, um breytingar á barnalögum, en samkvæmt þeim geta börn framvegis haft fasta búsetu hjá báðum foreldrum, þótt þeir búi ekki saman. Frumvarpið var samþykkt með 59 atkvæðum, en fjórir þingmenn sátu hjá.

Markmiðið er að foreldrar, sem kjósa að ala upp börn sín í góðri sátt á tveimur heimilum, standi þar jafnfætis en ekki sé ýtt undir ágreining með ójafnri stöðu heimilanna. Skipt búseta geti stuðlað að jafnari stöðu foreldra og gerir ráð fyrir að foreldrar geti unnið saman í öllum málum er varða barnið, en hagsmunir þess verða eftir sem áður í fyrirrúmi.

Fleiri ákvæðum barnalaga var breytt í dag, þar á meðal að forsenda þess að foreldrar semji um sameiginlega forsjá sé að foreldrar geti unnið saman á fullnægjandi hátt og haft samráð um málefni barns. Þá er það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Þá var breytt ákvæðum um framfærslu og meðlag, þar sem samningsfrelsi foreldra var aukið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert