Minnisblöð Þórólfs á Þjóðskjalasafnið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minnisblöð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem mörg eru fræg orðin að endemum, munu verða vistuð á Þjóðskjalasafni Íslands innan fárra ára. Þar verða þau flokkuð eins og önnur gögn opinberra aðila.

„Nei, það er ekkert farið að berast af þeim til okkar og á ekki að berast strax,“ segir Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður. Hún segir að minnisblöð Þórólfs, sem nema tugum talsins og hafa falið í sér ýmis tilmæli um samkomutakmarkanir, séu vistuð hjá embætti landlæknis og í heilbrigðisráðuneytinu. „Pappírsgögn eiga að skilast hingað eftir 30 ár en rafræn gögn eftir fimm ár. Við viljum helst í samtímanum, þar sem gögn verða til á rafrænan hátt, fá þau til okkar á rafrænu formi,“ segir Hrefna og bætir við að síðustu kannanir Þjóðskjalasafns bendi reyndar til þess að opinberir aðilar þurfi að bæta sig í rafrænum skilum á gögnum.

Hún segir aðspurð að viðbúið sé að mikið muni berast til safnsins af skjölum varðandi kórónuveirufaraldurinn. Hrefna kveðst þó ekki sjá fyrir sér að efnið verði flokkað sérstaklega þar að lútandi. „Líklegra er að haldið verði innra skipulagi hverrar stofnunar. Menn eiga að geta fundið með auðveldum hætti það sem snýr að Covid.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert