„Óviðunandi“ segir Guðlaugur Þór

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend

„Það kom okkur mjög á óvart að þetta skyldi beinast gegn íslenskum ríkisborgara sem var einungis að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til málfrelsis. Það er óviðunandi að hann skuli sæta slíkri meðferð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands í samtali við mbl.is. 

Greint var frá því í fyrr í dag að íslenskur maður sem gagnrýnt hefur kínversk stjórnvöld með skrifum í Morgunblaðinu hafi verið settur á svokallaðan svartan lista hjá kínverskum stjórnvöldum. 

Þvingunaraðgerðir gagnvart honum eru svar kínverskra stjórnvalda við þvingunaraðgerðum sem til stendur að Ísland taki þátt í, ásamt Evrópusambandslöndum, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, kín­versk­um lögaðilum og ein­stak­ling­um sem bera ábyrgð á mannrétt­inda­brot­um í Xinjiang-héraði gegn úíg­úr-múslim­um. 

Mótmælt bæði við sendiherra Kína og í gegnum sendiráðið úti

Guðlaugur staðfestir að til standi að Ísland taki þátt í þessum þvingunaraðgerðum. „Við tilkynntum ríkisstjórninni og utanríkismálanefnd Alþingis það 30. mars,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur ítrekar að íslensk stjórnvöld hafi komið á framfæri mótmælum, bæði hér á landi og úti í Kína. „Sendiherra Íslands í Kína hefur hefur komið á framfæri mótmælum við kínverska utanríkisráðuneytið. Þá kölluðum við sendiherra Kína á Íslandi á fund okkar í utanríkisráðuneytið í morgun þar sem þessum aðgerðum var mótmælt. Og áréttað að hér á landi ríki málfrelsi.“

Aðgerðir gegn óbreyttum borgara

Guðlaugur segir að hann hafi ekki verið upplýstur um aðrar ástæður en þær að maðurinn hafi skrifað á neikvæðan hátt um Kína í Morgunblaðið. „Þetta kom öllum í opna skjöldu,“ segir Guðlaugur Þór, þó að hann hafi átt von á viðbrögðum frá kínverskum stjórnvöldum bjóst hann ekki við því að þau myndu beinast að óbreyttum borgara.

Spurður hvort til standi að fleiri fari á svartan lista Kínverja segist Guðlaugur ekki hafa heimildir um slíkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert