Segjast hafa tekið á verkefninu af heilindum

Samgöngustofa hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lögð er …
Samgöngustofa hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lögð er áhersla á að fyrirtækið hafi sinnt öryggishlutverki sínu vel. Það rímar þó ekki alveg við skýrslu Ríkisendurskoðunar. mbl.is/​Hari

Samgöngustofa segir í tilkynningu að starfsfólk þar hafi tekist á við afar krefjandi verkefni af fagmennsku og heilindum, þegar flugfélagið WOW air lenti í fjárhagserfiðleikum, en stofnuninni bar skylda til að hafa eftirlit með WOW. 

Ríkisendurskoðun er harðorð í garð Samgöngustofu í skýrslu sinni um fall WOW air þar sem eftirliti af hálfu Samgöngustofu var talið verulega ábótavant, auk þess sem seinagangur stjórnvalda og viðskiptahagsmunir WOW air voru taldir hafa átt þátt sinn í málinu.

Gættu þess að flugöryggi yrði ekki stefnt í hættu 

„Flugöryggi er eitt af meginverkefnum Samgöngustofu og þungamiðjan í fjárhagslegu eftirliti stofnunarinnar með flugrekendum. Í þessu tiltekna máli tókst starfsfólk Samgöngustofu á við afar krefjandi verkefni af fagmennsku og heilindum.

Það fólst meðal annars í eftirliti og mati á ráðstöfunum í fjárhagslegri endurskipulagningu eins stærsta flugfélags landsins, án þess að flugöryggi væri nokkru sinni stefnt í hættu,“ segir í tilkynningu frá Samgöngustofu.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar var send til Samgöngustofu sem trúnaðarmál. Þegar trúnaði verður aflétt og skýrslan birt á vef Ríkisendurskoðunar, eftir að Alþingi hefur tekið hana til afgreiðslu, mun Samgöngustofa veita greið svör verði eftir þeim leitað. Kemur þetta fram í niðurlagi tilkynningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert