Sigríður Dögg býður sig fram til formanns BÍ

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, hefur boðið sig fram …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, hefur boðið sig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands. Það stefnir því í formannsslag á komandi aðalfundi 29. apríl, en Hjálmar Jónsson, núverandi formaður, hefur sagt að hann ætli að stíga til hliðar og þá hefur Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, þegar gefið kost á sér.

Í tilkynningu sem Sigríður birti á Facebook-síðu sinni segist hún hafa sent framboðstilkynningu til Blaðamannafélagsins. Hún segir að félagið standi nú á tímamótum og að færa þurfi starfsemi þess inn í nýja tíma.

Segir Sigríður að formaður BÍ eigi að leiða slíkt endurbótastarf auk þess að eitt helsta hlutverk formanns og félagsins sé að verja blaða- og fréttamenn sem þurfi að sitja undir ásökunum og jafnvel ærumeiðingum tengdum störfum sínum.

„Þá er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að ná fram bættum kjörum og auknu starfsöryggi í stéttinni og vinna að því að efla skilning á mikilvægi fjölmiðla í samfélaginu og þýðingu þeirra í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Sigríður hefur rúmlega tveggja áratuga reynslu í faginu, en hún lauk námi í hagnýtri fjölmiðlun árið 1999 og hóf þá störf á Morgunblaðinu, meðal annars sem fréttaritari í London. Þar vann hún einnig síðar við almannatengsl áður en hún kom itl Íslands aftur árið 2004 og hóf störf á Fréttablaðinu.

Árið 2007 stofnaði hún ásamt Valdimari Birgissyni, eiginmanni sínum, vikublaðið Krónikan, sem varð skammlíft. Síðan þá hefur hún starfað á DV, sem almannatengill fyrir Mosfellsbæ, stofnað eigin almannatengslastofu, var blaðamaður og ritstjóri Fréttatímans og að lokum sem fréttamaður á RÚV frá árinu 2017 auk þess að vera í Morgunútvarpinu á Rás 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert