Sló, beit og hótaði kærustu sinni

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og hótanir, en maðurinn réðst á kærustu sína á Akureyri í desember 2019, sló hana, beit og hótaði m.a. að drepa hana.

Héraðsdómur dæmdi manninn, sem játaði sök samkvæmt ákæru, jafnframt til að greiða hálfa milljón kr. í sakarkostnað. 

Fram kemur í dómnum, að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafi ákært manninn í október sl. Í ákærunni er maðurinn sakaður um ofbeldisbrot í nánu sambandi, en til vara líkamsárás og hótanir, sem voru framin á heimili hans 2. desember 2019. Þar réðst hann á kærustu sína, henti henni á rúm og sló hana margítrekað í andlitið með flötum lófa. Þá tók hann hana hálstaki og þrengdi að, hélt henni niðri og beit víðs vegar um líkama og andlit. Hann reif enn fremur í fatnað hennar og hótaði að nauðga henni. Þá segir að hann hafi einnig hótað að birta nektarmyndir og kynlífsmyndband sem hann var með í farsíma sínum og jafnframt að senda móður konunnar myndirnar og myndbandið. Þá hótaði maðurinn að drepa konuna þegar hún ætlaði að yfirgefa heimilið. 

Konan hlaut ýmsa áverka, s.s. maráverka og rispur.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi mætt fyrir dómara og játað sök samkvæmt ákæru.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert