Stórt svæði skíðlogaði vegna sinuelds

Slökkvilið í baráttu við sinueld. Mynd úr safni.
Slökkvilið í baráttu við sinueld. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slökkvilið hefur náð tökum á sinueldi sem braust út við bæinn Vífilsstaði í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði í kvöld.

Frá þessu greinir héraðsmiðillinn Austurfrétt og tekur fram að útkallið hafi borist um klukkan tíu í kvöld. „Verið var að brenna rusli við útihús á bænum en glóð frá því náði að læsa sig í þurrt grasið,“ segir í umfjöllun miðilsins.

Haft er eftir lögreglu að eldurinn hafi breiðst hratt út. Mikill eldur hafi mætt fyrstu viðbragðsaðilum og stórt svæði við fjárhúsið skíðlogað.

Um klukkan ellefu hafi slökkvilið verið búið að ná tökum á eldinum og slökkva hann að mestu. Svæðið verði þó vaktað fram eftir nóttu.

Nánar á Austurfrétt.

mbl.is