Vara við fjárkúgun eftir kynferðislegt netspjall

AFP

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að undanfarið hafi embættið fengið nokkrar tilkynningar um fjárkúgunartilraunir sem séu tengdar kynferðislegu myndspjalli á netinu.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að karlmenn hafi fengið skilaboð frá erlendri konu á Instagram og þeir beðnir um að setja upp Google Hangouts-spjallforrit til að ræða við hana.

Spjallið hafi svo þróast fljótt og orðið kynferðislegt og þegar viðkomandi hefur berað sig í spjallglugganum er hann krafinn um greiðslu, annars verði myndbandið sent á Facebook- og Instagram-vinalista viðkomandi.

Lögreglan varar við því að ekkert hafist upp úr því að greiða vegna slíkra hótana. Ekkert hafist upp úr því annað en áframhaldandi kúgun. Eru þeir sem lent hafa í álíka málum beðnir um að tilkynna það á netfangið abending@lrh.is.

mbl.is