Áætlanir standast og gott betur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir því að bólusetningum hér á landi gegn Covid-19 verði lokið fyrr en áætlað hafði verið en miðað hefur verið við að þeim ljúki um miðjan júlí. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í kjölfar tíðinda af staðfestri afhendingaráætlun bóluefnaframleiðandans Pfizer.

Von er á sam­tals 244.000 bólu­efna­skömmt­um Pfizer til Íslands í maí, júní og júlí. Í maí ber­ast 70.200 ­skammt­ar frá Pfizer, í júní 82.000 skammt­ar og 92.000 skammtar í júlí. Skammtarnir í júlí eru tvöfalt fleiri en áður hafði verið vænst.

„Þetta er umtalsverð aukning og er mjög gleðilegt að sjá. Það er góður gangur í afhendingunni hjá Pfizer sem hefur bein áhrif á bólusetningaráformin hjá okkur,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

Bóluefni Pfizer.
Bóluefni Pfizer. AFP

„Okkar áætlanir standast og gott betur“

Svandís segir að miðað hafi verið við að allir sem þyrftu að bólusetja yrðu bólusettir um miðjan júlí og sagði þá vera á bilinu 75%-80% landsmanna.

„Þessi aukning hjá Pfizer núna gefur tilefni til að við þurfum að endurskoða bólusetningaráætlunina þannig að við munum ná markmiðum okkar fyrr,“ segir Svandís og bætir við að bólusetningardagatal stjórnvalda verði uppfært með nýjustu fregnum eftir helgi.

Beðið eftir bóluefni Janssen

Nokkur þúsund hafa verið bólusett daglega undanfarna daga en alls eru 28.614 fullbólusett og 70.058 hafa fengið fyrri skammtinn af tveimur.

Líklegt er að bólusetningum ljúki mun fyrr en áætlað er ef bóluefni Janssen verður notað hér á landi. 2.400 skammtar af efninu bíða í geymslu en beðið er með notk­un þess á meðan rann­sakað er hvort bólu­efnið teng­ist sjald­gæfri teg­und blóðtappa. 

Skýrsla Lyfjastofnunar Evrópu um efnið er væntanleg í næstu viku en alls hafa stjórnvöld samið um kaup á 235.000 skömmtum af efninu. Ólíkt öðrum efnum þarf einungis eina sprautu, ekki tvær, til að teljast fullbólusettur.

mbl.is