Bæta þarf jarðtengingu í MAX 737

Boeing 737 MAX-þota Icelandair.
Boeing 737 MAX-þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

„Eftirlitsstofnun í Bandaríkjunum sem fylgist með hönnun allra flugvéla hefur fylgst sérstaklega vel með þessum [Boeing M737 MAX] vélum, umfram aðrar í ljósi þess sem kom upp á. Þeir vilja meina að svokölluð jarðtenging í ákveðnum hlutum á vélunum sé ekki nægilega góð og hana þurfi að bæta,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is. 

Greint var frá því í dag að Icelanda­ir hafi í varúðarskyni tekið eina Boeing 737 MAX-vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úr­bæt­ur eru gerðar sam­kvæmt til­mæl­um Boeing og banda­rískra flug­mála­yf­ir­valda.

Haukur segir að ekki liggi fyrir að svo stöddu á hvaða hátt þurfi að bæta jarðtenginguna en aðgerðin ætti að vera einföld og taka aðeins hluta úr degi. 

„Það er nú einu sinni þannig í flugbransanum að það eru allir hlutir flóknir. Við megum ekki gera þessa einföldu viðgerð fyrr en Boeing gefur út nákvæm tilmæli um hvernig hún skal vera gerð. Svo við bíðum bara eftir því.“

Ekki mikill fjárhagslegur skellur

Af hverju var ein vél kyrrsett en ekki allar þrjár?

„Út af því að hinar vélarnar eru ekki á sama stað í framleiðsluferlinu. Hver vél hefur raðnúmer og þeir vita hvar í framleiðsluröðinni var verið að ganga frá jarðtenginum með þessum hætti.“

Haukur segir að vegna ástandsins vegna heimsfaraldurs valdi þessi kyrrsetning ekki miklum fjárhagslegum skelli fyrir Icelandair. „Ef við værum í fullri nýtingu á okkar flota og flugi á hverjum degi eins og árið 2019, hefði þetta haft vond áhrif á okkur,“ segir Haukur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert