Brandenburg fékk flesta lúðra

Auglýsingastofan Brandenburg hlaut flesta lúðra, alls sex, á Lúðrinum, íslensku auglýsingaverðlaununum sem voru afhent í 35. sinn í kvöld. Er þetta fjórða árið í röð sem Brandenburg er hlutskörpust. Stofan fékk meðal annars verðlaun fyrir kvikmyndaða auglýsingu og PR fyrir Nova og mörkun KSÍ.

Næst í röðinni kom EnnEmm með fjóra lúðra, þá Kontor og H:N með tvo lúðra hvort, og TVIST með einn lúður. Pipar/TBW hlaut verðlaun fyrir árangursríkustu herferðina, fyrir KFC.

Að þessu sinni fór athöfnin fram rafrænt en sýnt var frá hátíðinni á netinu. Það eru sam­tök ís­lensks aug­lýs­inga­fólks, ÍMARK, sem standa fyr­ir verðlaun­aafhendingunni.

„Við erum virkilega ánægð með afraksturinn eftir ár sem var nokkuð flókið. Við leggjum mikið upp úr árangursdrifinni hugmyndavinnu og það er mikilvægt að fólk fái frelsi til að taka virkan þátt í þeirri vinnu. Á stofunni starfar samhentur hópur sem hefur ólíkan bakgrunn en markmiðið er alltaf það sama; að búa til sterkt og vandað efni sem vekur athygli og nær árangri. Góð hugmynd er nefnilega dýrmætur grunnur fyrir gott markaðsefni. Þessi uppskera er frábær hvatning og það er alltaf skemmtileg stemning í kringum Lúðurinn,“ segir Hrafn
Gunnarsson, hugmynda- og hönnunarstjóri á Brandenburg.

Þau Villi Neto og Björk Guðmundsdóttir voru kynnar kvöldsins.
Þau Villi Neto og Björk Guðmundsdóttir voru kynnar kvöldsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is