Gönguleiðin styttist

Gosstöðvarnar í Geldingadölum.
Gosstöðvarnar í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hraun rann í nótt yfir gönguleið A, við endann á henni þegar komið er inn á gossvæðið í Geldingadölum. Gunnar Schram yfirlögregluþjónn segir að leiðinni hafi ekki verið breytt, en að hún hafi styst því sem nemur hrauninu. 

„Gönguleiðin styttist í annan endann við þetta. Við erum búin að búast við þessu undanfarna daga, þetta hefur verið að síga hægt í áttina að þessu. Þetta er ekkert sem kemur á óvart,“ segir Gunnar. 

Tvær merktar gönguleiðir eru að gossvæðinu, A og B. Gunnar segir að leið A sé auðveldari og mun fjölfarnari. 

„Leiðin styttist sem nemur ákveðinni vegalengd, en svo erum við að skoða þessi gönguleiðamál á hverjum degi með tilliti til aðstæðna. Þetta er norðurendi leiðarinnar þar sem hrauntungan er, við höfum verið að fylgjast vel með þessu og vissum af þessu. Þetta sem sagt slítur bara endann af leiðinni, það er góður útsýnispunktur þarna núna,“ segir Gunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert