Gossvæðið vaktað frá hádegi

Björgunarsveitarmenn við eldgosið.
Björgunarsveitarmenn við eldgosið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gossvæðið verður vaktað af lögreglu og björgunarsveitum á milli klukkan 12 og 24 í dag. Að sögn Hjálmars Hallgrímssonar, vettvangsstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum, er veðrið í Grindavík þokkalegt en það mun ganga á með skúrum.

Aðgerðastjórn og vettvangsstjórn funda um stöðu mála á svæðinu klukkan 9, ásamt veðurfræðingum og öðrum sérfræðingum.

Hraun hefur runnið yfir gönguleið A, við endann á henni þegar komið er inn á gossvæðið og sér fólk það um leið og þangað er komið.

Spurður segist Hjálmar ekki vita til þess að neinn hafi farið á gossvæðið í gær enda var veðrið slæmt. „Ég held almennnt að fólk hafi séð veðrið og hætt við,“ segir hann og hefur ekki upplýsingar um hvort bílar hafi verið komnir á staðinn í morgun.

Uppfært kl. 8.15:

Aðgengi almennings að gossvæðinu er til kl. 21 í kvöld og rýming svæðis hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti. Þetta kemur fram í tilkynningju frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Veðurlýsing fyrir daginn:

Fremur hæg norðlæg átt í fyrstu, en síðan norðvestan átt um 8-13 m/s.  Skammvinn vestanátt með snjókomu milli kl. 15 og 18. Hæg breytileg átt í kvöld og líkur á stöku éljum, en þurrt í nótt. Frost 0 til 3 stig.

Gasmengunin ætti fyrst að fara til suðurs og síðar suðvesturs og ekki líkur á mengun í byggð. Í kvöld er aftur á móti hæg breytileg átt og líkur á að gas safnist upp við gosstöðvarnar.

Laugardagur:

Gossvæðið verður vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá kl. 12 á morgun til kl. 24.  Lokað verður inn á svæðið kl. 21.   Rýming hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti.

Veðurlýsing fyrir daginn:

Hæg suðlæg eða suðvestlæg átt og þurrt. Hægt vaxandi vindur þegar líður á daginn, S og síðar SV 8-13 m/s síðdegis með éljum.  Hiti kringum frostmark. Gasmengun berst einkum til norðurs og norðausturs og gæti borist að Vogum og til Höfuðborgarsvæðisins.

Sunnudagur:

Gossvæðið verður vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá kl. 12 á morgun til kl. 24.  Lokað verður inn á svæðið kl. 21.   Rýming hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti.

Bannað að leggja á og við Suðurstrandaveg

Bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skal bílum á skipulögðum stæðum neðan þjóðvegar.

Börnum, öldruðum, barnshafandi konum og þeim sem hafa undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma er rálagt frá því að fara á gosstöðvarnar ef einhver loftmengun er yfirvofandi. Einnig getur verið yfirborðsmengun í jarðvegi, snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors (F). Yfirborðsmengun er mest í næsta nágrenni við gosstöðina. Vegna loftmengunar er ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar.

Eldgosið á Reykjanesskaga.
Eldgosið á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is