Sækjast ekki eftir umframbirgðum Dana

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki stendur til að reyna að fá lánað eða kaupa bóluefni AstraZeneca frá Dönum sem eru, líkt og áður hefur verið greint frá, alfarið hættir að nota bóluefnið gegn Covid-19.

Danir sitja uppi með einhverjar birgðir af efninu og hafa þeir sagst ætla að koma því til fátækari ríkja heimsins. Einnig hefur því verið fleygt fram hvort Íslendingar geti fengið umframbirgðirnar en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki hafa neitt upp á sig:

„Við erum með frekar þrönga ábendingu fyrir bóluefni AstraZeneca en við ætlum að nota það hjá einstaklingum eldri en 60, 65 ára,“ segir Þórólfur.

Samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda stendur til að bólusetja fólk á aldrinum 60-69 ára í þessum og næsta mánuði og að mati sóttvarnalæknis er óþarfi að bæta við birgðum af AstraZeneca vegna þess.

„Það er ekki víst að það hafi neitt upp á sig að fá bóluefni lánað hjá þeim núna og sitja uppi með það. Mér finnst það ekki vera raunhæft á þessari stundu alla vega,“ segir Þórólfur.

2.400 skammtar af bóluefni Janssen bíða áfram í geymslu en beðið er með notk­un þess á meðan rann­sakað er hvort bólu­efnið teng­ist sjald­gæfri teg­und blóðtappa. Þórólfur segir að skýrsla frá Lyfjastofnun Evrópu þess efnis sé væntanleg í næstu viku.

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP
mbl.is