12,1 milljarður í uppsagnastyrki

Boeing Max 8 þota Icelandair lendir á Reykjavíkurvelli.
Boeing Max 8 þota Icelandair lendir á Reykjavíkurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair er það fyrirtæki sem hafði um mánaðamótin febrúar/mars fengið mestan stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu á hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti eða samtals tæpa 3,7 milljarða króna vegna 1.918 starfsmanna.

Þetta kemur fram á nýju yfirliti skattsins. Næst í röðinni eru Flugleiðahótel sem hafa fengið um 627 milljónir kr. vegna 493 starfsmanna, Bláa lónið um 603 milljónir vegna 550 starfsmanna, Íslandshótel um 593 milljónir vegna 468 starfsmanna og Miðbæjarhótel/Centerhotels um 260 milljónir vegna 226 starfsmanna.

Fram kom á yfirliti sem fjármálaráðuneytið birti í vikunni um aðgerðir og styrki og stuðning vegna veirufaraldursins að hinn 14. apríl höfðu borist 1.555 umsóknir um styrk vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti og höfðu allar umsóknirnar verið afgreiddar. Samtals hafa þá verið greiddir um 12,15 milljarðar króna vegna þessa stuðnings en úrræðið var lögfest í lok maí í fyrra vegna afleiðinga faraldursins.

Skatturinn hefur nú einnig birt upplýsingar um þá sem fengið hafa greidda tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki miðað við stöðuna 14. apríl sl. Birt eru nöfn allra fyrirtækja og lögaðila sem hafa fengið tekjufallsstyrk og viðspyrnustyrk og fjárhæð til hvers og eins ef hún er yfir sem nemur 100 þúsund evrum (um 15,1 milljón ísl. kr.), að því er fram kemur  í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert