Erfitt að smitaðir starfsmenn séu langt í burtu

Frá Asoreyjum.
Frá Asoreyjum. AFP

Sex starfsmenn Jarðborana, þeirra á meðal fimm Íslendingar, á Asoreyjum hafa greinst með Covid-19. Alls eru 18 starfsmenn á vegum Jarðborana á Asoreyjum og um helmingur þeirra Íslendingar. 

Jarðboranir hafa sinnt verkefni á eyjunum frá því síðasta sumar og gert er ráð fyrir því að verkið klárist í lok árs. Auk sex starfsmanna fyrirtækisins greindist einn starfsmaður viðskiptavinar þess. 

Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir í samtali við mbl.is að fyrstu smitin hafi greinst á þriðjudag. Þeim hafi síðan fjölgað eftir því sem leið á vikuna. 

Frétt af mbl.is

Hafa samband reglulega

Einkenni starfsmannanna eru mismunandi en enginn hefur veikst alvarlega enn sem komið er. 

„Við hringjum í þá og þeir hafa samband reglulega. Okkur sýnist ástandið vera óbreytt, enginn sem er að sýna ný einkenni sem er að láta okkur vita af því. Þeir sem voru ósmitaðir en nálægt þessum hópi fara nokkrir aftur í próf á mánudaginn,“ segir Sigurður. 

Heilbrigðiskerfið á Asoreyjum sé vel statt ef alvarleg veikindi komi upp. 

„Það er greinilega Covid-teymi á Asoreyjum og þeir í heilbrigðiskerfinu þar eru farnir að hringja líka í okkar starfsmenn til að fylgjast með líðan. Það er held ég eins vel að þessu staðið og hægt er miðað við aðstæður. Þetta er eyja sem tilheyrir Portúgal svo kerfið þarna er eins og væri í Evrópu, þetta er frekar vestrænt umhverfi,“ segir Sigurður. 

Þá hafði fyrirtækið samband við trúnaðarlækni sinn hérlendis í þeirri von um að Covid-göngudeild Landspítalans gæti átt í samskiptum við starfsmennina. 

Erfiðast fyrir þá sem eru veikir 

Sigurður segir að smitið hafi ekki verið rakið. 

„Það hafa verið smit þarna á eyjunum, en við höfum reynt að halda okkar mannskap í búbblum. Þeir eiga ekki að hafa haft samskipti á milli vakta eða út á við og allir þeir sem við erum í samskiptum við eru að vinna í Covid-umhverfi. Eins og öll svona smit væntanlega verða til þá er það út af einhverju smáatriði einhvers staðar sem einhverjum yfirsést. Án þess þó að við höfum náð að greina hvernig þetta kom inn í hópinn,“ segir Sigurður. 

„Menn hafa tekið Covid-reglum mjög alvarlega, verið mjög meðvitaðir og okkur hefur tekist að vinna alveg í heilt ár án þess að fá nokkur smit, hvort sem er hérna heima eða úti,“ bætir hann við. 

Spurður hvort Sigurður geri ráð fyrir að fleiri eigi eftir að greinast segir hann:

„Við vonum auðvitað ekki en í þessu ástandi veit maður aldrei hvað gerist. Ég trúi því og veit að við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tækla ástandið á réttan hátt. Við erum með neyðarteymi innanhúss sem hefur verið í samskiptum við þá.

Það er óþægilegt að vera með starfsmenn sína svona langt frá sér og geta ekki nálgast vandamálið nær. Það er svona erfiðast í þessu fyrir okkur sem erum að stússast í kringum þetta en auðvitað er þetta erfiðast fyrir þá sem eru veikir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert