Getur séð handleggina hreyfast í sýndarveruleika

Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig handleggi í Lyon í Frakklandi fyrr á árinu, getur nú séð sig hreyfa handleggina í gegnum sýndarveruleikagleraugu sem vonast er til að geti hjálpað honum við endurhæfingu. Piotr Loj stendur að baki tækninni sem hann hefur þróað með stórum háskólum í Bandaríkjunum, þar á meðal MIT í Boston.

Góðgerðarsamtökin Góðvild bjóða Guðmundi upp á þjónustuna og kom samstarf samtakanna og Guðmundar til á nokkuð spaugilegan hátt.

„Ég sat með dóttur minni sem er langveik eitt kvöldið og við vorum að skoða fréttir og ég fór að segja henni frá Guðmundi. Þá vildi hún sjá fleiri myndir af honum og við fórum inn á Facebook-síðuna hans. Svo ýtti hún bara á takka til þess að hringja í hann og hann svaraði. Þá allt í einu fæddist þessi pæling, hvort við gætum ekki einhvern veginn nýtt þessa tækni fyrir hann,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Góðvildar, í samtali við mbl.is.

Gabba heilann

Tæknin sem Piotr beitir byggist á sýndarveruleikamyndskeiðum sem byggð eru á 360° raunverulegum myndskeiðum. Myndskeiðin getur fólk séð í gegnum sýndarveruleikagleraugu.

„Svo geturðu bara horft allt í kringum þig, þú getur staðið á skýi og horft niður á heiminn, þú ert kominn í einhvern svona draumaheim þar sem er hægt að gera nánast allt saman og þetta er mjög raunverulegt,“ segir Sigurður.

Það mun taka taugar Guðmundar Felix nokkuð langan tíma að vaxa út í handleggi gjafans.

„Til þess að hjálpa þessu ferli tökum við myndband sem er tekið út frá hans sjónarhorni og í sýndarveruleikamyndbandinu sér hann hendurnar á sér byrja að hreyfast. Það sendir skilaboð til heilans, þá er verið að plata heilann til að halda að hendurnar séu að hreyfast,“ segir Sigurður.

„Vegna þess að þetta er svo raunverulegt þá tekur heilinn því eins og þetta sé að gerast raunverulega og þá eykur það vöxtinn á þessum taugaendum þannig að þeir vaxa hraðar fram í hendurnar og fram í fingur.“

Sýnd­ar­veru­leika­mynd­skeiðið sem Guðmund­ur mun að lok­um fá í hend­urn­ar er …
Sýnd­ar­veru­leika­mynd­skeiðið sem Guðmund­ur mun að lok­um fá í hend­urn­ar er enn í vinnslu en í mynd­skeiðinu hér að ofan er hægt að sjá stutta klippu úr mögu­legri út­komu.

Verður hluti af daglegri meðferð

Tæknin hefur ekki áður verið notuð á fólk sem hefur fengið útlimi grædda á sig. Hún hefur aftur á móti verið notuð fyrir fólk sem hefur lamast, lent í slysum eða alvarlegum veikindum og til þess að bjóða þeim sem eiga erfitt með að yfirgefa heimili sín tækifæri á að upplifa ýmislegt sem annars stæði þeim ekki til boða. Tæknin hefur gefið góða raun fyrir þá hópa sem hafa prófað hana, að sögn Sigurðar, og er vonast til þess að hún muni einnig geta hjálpað Guðmundi Felix með sinn bata.

„Svo mun þetta verða partur af hans daglegu meðferð, að horfa á myndböndin. Síðan fer Piotr líklega aftur til hans þegar hann er kominn með meiri færni, og taka þetta á næsta stig. Við verðum að fylgja honum næstu árin, þangað til hann er kominn með fulla stjórn á höndunum.“

Fá að upplifa drauma sína í gegnum sýndarveruleika

Hvað myndskeið fyrir þá sem eiga erfitt með að yfirgefa heimili sín eða sjúkrahús vegna fötlunar eða langvarandi veikinda varðar segir Sigurður:

„Við hjá Góðvild höfum verið að gera með Piotr sýndarveruleikamyndbönd þar sem við gerum drauma barna sem eru langveik eða fötluð að veruleika með því að búa til sýndarveruleikamyndskeið sem gera þeim kleyft að fara á þann stað sem þau vilja þegar þau vilja.“

Piotr er nú staddur á Íslandi og er hugmyndin að hann gangi að gosstöðvunum í Geldingadölum og taki upp myndskeið sem mögulegt verði að nota í sýndarveruleika. Þá geta þau sem annars gætu ekki farið að gosstöðvunum upplifað þær. 

„Þá geta þau upplifað þetta eins raunverulega og mögulegt er án þess að vera á staðnum,“ segir Sigurður.

Góðvild safnar styrkjum og greiðir fyrir vinnu Piotrs. Söfnun stendur nú yfir á Karolina Fund. Fjármagnið sem safnast þar er notað til þess að gera börnum kleyft að fara í sýndarveruleikaferðalag með tækni Piotrs.

mbl.is