Ný sprunga hefur opnast

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. Morgunblaðið/Ólafur Þórisson

Ný sprunga hefur opnast á gosstöðvunum á Reykjanesskaga. Veðurstofa Íslands varð vör við minni gosóróa á svæðinu upp úr klukkan 13 í dag sem gaf til kynna að mögulega væri nýtt gosop að myndast. Landhelgisgæslan og Almannavarnir staðfestu svo stuttu síðar að um nýtt gosop væri að ræða.

Gosopið er tiltölulega lítið og opnaðist á sömu sprungulínu og önnur gosop hafa þegar opnast á, þ.e. þeirri línu sem liggur ofan við kvikuganginn sem olli jarðskjálftum á suðvesturhorninu í febrúar.

Áður hefur verið greint frá því að gosopin séu orðin átta í Geldinga- og Meradölum, en sérfræðingur Veðurstofu Íslands segir að nú séu þau einungis um sjö. Einhver gosop hafa sameinast og því þarf að fljúga yfir gosstöðvarnar til þess að hægt sé að telja gosopin. Sérfræðingur Veðurstofu segir að ekki sé fyrirhugað að fara í þyrluflug yfir gosstöðvarnar í dag vegna veðurs.

mbl.is