Virkjuðu plan B við atvinnumissi

Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir eru nemendur við Lýðskólann …
Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir eru nemendur við Lýðskólann á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

Nemendur við Lýðskólann á Flateyri koma úr ýmsum áttum og misjafnt hvað það er sem dregur þá vestur á firði. Í vetur hefur parið Jenný María Unnarsdóttir og Viktor Gíslason stundað þar nám en þau eru bæði atvinnuflugmenn. Þegar Covid bankaði upp á misstu þau bæði vinnuna en hún hafði starfað sem flugmaður hjá Icelandair frá árinu 2017 og hann var að hefja þar störf. Ekkert annað var í boði en að hugsa hlutina upp á nýtt. 

Þegar blaðamaður náði í Jenný í vikunni sem leið voru þau stödd í tjaldi uppi á fjalli. Eitt af þeim verkefnum sem nemendur á námsbrautinni Hafið, heimurinn og þú takast á við. Þrátt fyrir aðstæður og ekkert netsamband tókst blaðamanni að ræða við Jenný í síma um þá ákvörðun þeirra Viktors að hefja nám við Lýðskólann síðasta haust. 

Þegar viðtalið var tekið voru þau Viktor Gíslason og Jenný …
Þegar viðtalið var tekið voru þau Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir í tveggja daga útilegu og gistu í tjaldi uppi á fjalli. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að þau hafi ákveðið að láta ekki atvinnumissi stöðva sig heldur nýta tímann til að gera eitthvað sem þau hefðu áhuga á og helst af öllu bæta við sig þekkingu. Það hafi reynst þrautin þyngri því bæði höfðu fundið sína ástríðu í fluginu. „En við ákváðum að búa til plan B og útivist hefur alltaf heillað okkur án þess að við hefðum náð að stunda hana af fullum krafti,“ segir Jenný.

Þau duttu niður á námið við Lýðskólann á Flateyri og fannst það strax spennandi að dvelja einn vetur í litlum bæ á Vestfjörðum sem þau heimsóttu í fyrsta skipti síðasta sumar. Að verða hluti af litlu samfélagi og þannig enduðu þau á Flateyri.

Jenný segir að meðal þess sem dró þau að hafi verið spennandi áfangar og flottir kennarar sem kenna hluti sem þau vildu svo sannarlega kynnast. Svo sem ísklifur, brimbretti, útilegur við krefjandi aðstæður, læra vetrarfjallamennsku betur og fara á Hornstrandir. Meðal þeirra sem hafa kennt þeim er Veiga Grétarsdóttir sem kenndi þeim á kajak en hún varð fyrst íslenskra kvenna til að sigla rangsælis í kringum Ísland.

Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir eru nemendur við Lýðskólann …
Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir eru nemendur við Lýðskólann á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er í raun frábært tækifæri,“ segir Jenný þegar blaðamaður spyr hana nánar út í námið. Á vef Lýðskólans á Flateyri segir eftirfarandi um námsbrautina: „Þetta er námsleiðin fyrir þig sem dreymir um að upplifa náttúruna. Læra að ferðast um hana, vinna með hana, nýta og kanna á öruggan hátt.

Ísklifur, flögrandi norðurljós, púðursnjór frá fjöru til fjalls. Kjöt í reykkofa, þari í þurrki, lífið í hægum takti. Eins og við viljum hafa það. Ef náttúran heillar er í Önundarfirði allt til alls svo að þú getir notið þín í Lýðskólanum á Flateyri. Við munum eyða stórum hluta tíma okkar utandyra og þú getur bókað að það verður í öllum veðrum og við ýmsar aðstæður sem þú hefur ekkert endilega komist í áður.

Þú munt kynnast gleðinni við að ná fjallstoppi. Sjá hráefni verða að ljúfmeti. Fanga augnablik og fegurð á mynd. Ræða heimsmálin, já eða fótbolta, við samnemendur. Slá upp leiksýningu í félagsheimilinu. Leikur við öldurnar.“

Jenný og Viktor stefna á að vera áfram á Flateyri í sumar og eru með í undirbúningi að koma á laggirnar þjónustu fyrir ferðamenn í bænum. „Engin ferðamannamiðstöð er starfandi á Flateyri þar sem hægt er að fá upplýsingar um áhugaverða staði og gistingu svo fátt eitt sé nefnt. Svo sem að bóka sig í ferðir. Fá kaffi og kaupa vörur sem framleiddar eru í heimabyggð,“ segir Jenný. Verkefnið vinna þau í samstarfi við eigendur Vagnsins en veitingastaðurinn er lokaður á daginn og því töldu þau upplagt að nýta húsnæðið í annað á daginn.

Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir.
Viktor Gíslason og Jenný María Unnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Haustið er einnig ráðið og útivistin heillar þau Jenný og Viktor áfram því þau eru búin að skrá sig í nám í fjalla- og jöklaleiðsögn við Framhaldsskólann í Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði.

„Við vorum ákveðin í að gera gott úr þessu þrátt fyrir að fótunum hafi verið kippt undan okkur með Covid. Það er ekki hægt að fara bara í fýlu,“ segir Jenný og að þau hafi ákveðið að líta á þetta sem tækifæri og að fá auka tíma til að gera eitthvað annað.

„Við vitum að flugið fer af stað aftur, það er ekki spurning þar um heldur frekar hvenær. Auðvitað erum við orðin spennt og óþreyjufull að fara að fljúga aftur því þar liggur áhuginn helst hjá okkur báðum. En við bíðum og nýtum tímann til að upplifa spennandi tækifæri,“ segir Jenný í samtali við blaðamann mbl.is.

Nánari upplýsingar um Lýðskólann á Flateyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert