Vormaraþon verður haldið

Hlaupið verður hálft maraþon og heilt maraþon 24. apríl.
Hlaupið verður hálft maraþon og heilt maraþon 24. apríl. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Pétur Haukur Helgason, formaður Félags maraþonhlaupara, segir árlegt vormaraþon félagsins verða haldið laugardaginn 24. apríl. Það hafi orðið ljóst eftir að slakað var á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Maraþonið hefst í Elliðaárdalnum rétt hjá gömlu rafstöðinni klukkan átta árdegis og hálfmaraþonið kl. tíu. „Hlaupið er vestur Fossvogsdalinn og snúið við á horni Hofsvallagötu og Ægisíðu og farin sama leið til baka. Hlaupið á sér langa sögu og fór fyrst fram 1998 og er haldið á vorin og haustin. Báðum hlaupunum var frestað í fyrra vegna faraldursins en nú stendur til að halda hlaupið og skipuleggja það í samræmi við gildandi sóttvarnareglur,“ segir Pétur Haukur um hlaupaleiðina.

„Til að koma í veg fyrir hópamyndun verður markið haft opið í tiltekinn tíma og verður flögutíminn látinn gilda. Þetta á þó ekki við um vinningstímann en þá ræður skottíminn og fljótustu hlaupararnir verða að mæta í upphafi rástíma.

Hlaupið hefur notið mikilla vinsælda gegnum árin enda er það mátulega fjölmennt og reynt er að hafa alla umgjörð þess afslappaða og skemmtilega. Til dæmis er hefð fyrir því að bjóða hlaupurum upp á nýbakaðar vöfflur þegar þeir koma í mark ásamt öðru góðgæti. Því miður verður að sleppa því í þetta sinn vegna óvenjulegra aðstæðna,“ segir Pétur í Morgunblaðinu í dag.

Skráning í vormaraþonið fer fram á vefsíðunni netskraning.is. Að þessu sinni verður notast við flögu sem límd er aftan á einnota númer sem keppendur bera á treyju sinni. Að sögn Péturs Hauks hefur þetta kerfi reynst vel í Powerade-vetrarhlaupunum í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert