Bjarni segir Íslendinga standa á krossgötum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vatnaskil eru að verða í baráttunni gegn kórónuveirunni hér á landi vegna síaukins fjölda fólks sem er bólusettur, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann var gestur umræðuþáttarins Sprengisands á Bylgjunni í morgun. 

Þar sagði hann að Íslendingar stæðu á krossgötum og að næstu mánuðir, maí og júní, myndu skipta sköpum í baráttunni við faraldurinn.

„Við erum við krossgötur núna. Það eru að verða algjör vatnaskil í baráttunni við veiruna þegar okkur er að takast núna á næstu vikum að bólusetja alla viðkvæmu hópana, allar eldri kynslóðirnar og koma framlínufólkinu öllu í bólusetningu.

Maí og júní eru eins konar úrslitamánuðir hjá okkur til þess að stórauka bólusetningar með auknum fjölda í hverri viku og þetta breytir auðvitað allri vígstöðu í málum. Að því leytinu til er allt að breytast,“ skrifar Vísir eftir orðum Bjarna á Sprengisandi. 

Ekki hægt að bjarga öllum

Bjarni ræddi einnig stöðu ríkisfjármálanna í morgun og sagði að lagt hefði verið upp með það frá byrjun að ríkissjóði yrði beitt til að dempa höggið af efnahagslægðinni í kjölfar faraldursins. Að hans sögn var ekki hægt að bjarga öllum og ekki hefði verið skynsamlegt að reyna slíkt. 

„Ég er einfaldlega á þeirri skoðun að við eigum að beita ríkisfjármálunum af fullum krafti núna til þess að styðja við hagkerfið, sem var í eins konar áfalli,“ sagði Bjarni.

„Við höfum séð tiltölulega fá gjaldþrot og ég held að það sjái það allir landsmenn að þetta er slíkt áfall, þetta er áfall af þeirri stærðargráðu að það var ekki hægt að bjarga öllum með allt, og kannski ekki endilega skynsamlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert