Ég á nú ekkert í þér!

Hörður Jón Fossberg Pétursson hitti aldrei blóðföður sinn Gunnlaug en …
Hörður Jón Fossberg Pétursson hitti aldrei blóðföður sinn Gunnlaug en er afar þakklátur að fá það loks staðfest að hann sé sonur hans. Fossberg-ættin hefur tekið honum og börnum hans vel. mbl.is/Ásdís

Hörður, sem á að baki langa og farsæla ævi, hefur talið frá unga aldri að maður sá sem kvæntur var móður hans væri ekki faðir sinn. Það var þó ekki fyrr en í síðasta mánuði að rétt faðerni var staðfest og það í héraðsdómi. Hörður er ekki sonur Péturs Hoffmanns Salómonssonar sem kenndur var við Selsvör, heldur Gunnlaugs Jónssonar Fossbergs kaupmanns.

Mamma gerir sig að ambátt

„Þegar mamma, Sveinbjörg Sigfúsdóttir, var nítján ára réð hún sig á spítalann í Neskaupstað, en það var í spænsku veikinni 1919. Þar vildi svo óheppilega til að hún varð ófrísk eftir læknakandídat sem var trúlofaður annarri og að undirbúa brúðkaup,“ segir Hörður.

 „Svo kom maður til mömmu hennar og bauðst til að taka dóttur hennar að sér með barnið. Og það var Pétur Hoffmann Salómonsson. Og hvað á fátæk stúlka að gera? Hún gengur að þessu og eins og ég segi, gerir sig að ambátt. Þau giftust ekki af ást,“ segir Hörður. 

 „Svo líða árin og þau hlaða niður börnum, nánast á hverju ári. Sú fyrsta, sem fæddist í Danmörku, kom 1920, bróðir minn 1921 og síðan komu tvö börn sem dóu mjög ung. Síðan fæðist systir mín 1925, svo systir 1928, bróðir 1929, ég 1931, systir 1932 og systir 1934. Þá voru þau flutt til Reykjavíkur en bjuggu lengi áður á Ísafirði. Þegar þarna er komið er hjónabandið farið í mola en Pétur var mjög drykkfelldur og ofstopamaður með áfengi. Hann var þekktur í bænum fyrir slagsmál og ólæti. Pétur gerði stundum góð viðskipti en svo fór allt í súginn vegna óreglu,“ segir Hörður og segir ólætin hafi bitnað á fjölskyldunni. 

Óvænt marsípanterta í ferminguna

Hörður segir að þau systkinin hafi eitt sinn heimsótt föður sinn Pétur í Grjótaþorpið þar sem hann bjó og sat hann þá að sumbli. „Við ætluðum að fá aur í bíó, en ég var þá þriggja, fjögurra ára. Hann situr í dyragættinni í djúpum stól og er þokkalega drukkinn. Hann tekur á móti okkur krökkunum og er ég seinastur í röðinni inn. Þá ýtir hann í mig með fætinum og segir: „Ég á nú ekkert í þér!“ Ég mundi þetta. Systir mín hundskammaði hann fyrir að koma svona fram við barnið,“ segir Hörður.

„Svo náði þetta ekkert lengra og við ólumst upp hjá mömmu. Pétur var bara farinn og gerði aldrei neitt fyrir okkur börnin sjö,“ segir hann.

„Svo leið tíminn og kom að því að ég ætti að fermast. Ég var alltaf óskírður en hafði verið gefið nafnið Hörður og var Pétursson. En þegar kom að fermingu þurfti ég fyrst að vera skírður og það var gert viku fyrir fermingu. Áður en við förum að heiman segir mamma: „Viltu ekki bæta Jónsnafni við?“ Mér fannst það ekki koma til greina en hún bað mig svo innilega að þar með var ég skírður Hörður Jón. Ég notaði aldrei Jónsnafnið, fyrr en núna upp á síðkastið. Mamma var í raun að merkja mig föður mínum,“ segir hann en raunverulegur afi hans hét Jón.

Þegar þú varst unglingur, hugsaðir þú um það að mögulega væri Pétur ekki pabbi þinn?

„Já, já. Það kom stundum til tals milli okkar systkina og aðallega á milli þeirra.“

Hörður segir að óvæntur glaðningur hafi borist í fermingarveisluna.

„Það kom fullt af fólki eins og gengur og svo kom allt í einu stór marsípanterta og kort með. Þar stóð: Innilega til hamingju með ferminguna. J.,“ segir Hörður og vöknar um augu við að rifja upp þessa minningu.

Fermingarkortið sem fylgdi marsípanköku og 150 krónum, sem þótti mikill …
Fermingarkortið sem fylgdi marsípanköku og 150 krónum, sem þótti mikill peningur í þá daga. mbl.is/Ásdís

„Og hundrað og fimmtíu krónur í peningum sem voru töluverðir fjármunir 1945. Ég spurði mömmu frá hverjum þetta væri og hún sagði það vera frá gömlum vini. Ég fékk ekkert meira að vita,“ segir hann og nær í handskrifaða fermingarkortið sem hann hefur geymt í öll þessi ár. Rithöndin er sennilega Fossbergs.

Hann er ekkert Pétursson!

 „Svo líða árin og ég kynnist stúlku á unglingsárunum og það var eitt sinn að vinkona mömmu hennar kemur í heimsókn. Mamman segir henni að dóttir sín sé komin með kærasta og hin spyr hver það sé. Þá segir hún; hann heitir Hörður Pétursson. „Hann er ekkert Pétursson!“ segir þá vinkonan. Bærinn var lítill. Kærastan mín sagði mér frá þessu og nefndi nafnið á föður mínum. Það var altalað. Það var þá Gunnlaugur Jónsson Fossberg. Ég hafði áður heyrt nafnið, en hafði þá ekki hugsað út í það sem krakki. Ég spurði mömmu út í þetta og hún svaraði: „Góði vertu ekki með þessa þvælu.“

Drengurinn verður að læra

Þegar Hörður var um tvítugt vann hann á höfninni en þar í grennd var Vélaverslun G.J. Fossberg. 

„Vinnufélagi minn spurði mig eitt sinn hvort ég ætlaði ekki að fara að heimsækja pabba minn. Þá vissi hann þetta. Mér fannst ég ekki geta spurt hann frekar, því mér fannst það niðurlæging, en þarna var enn ein vísbendingin,“ segir Hörður og útskýrir að Gunnlaugur hafi verið giftur maður og hafi verið það einnig þegar hann fæddist.

Hörður lærði svo húsgagnabólstrun en sú ákvörðun var tekin vegna þess að föður kærustunnar fannst ekki hæfa að dóttirin væri í tygjum við hafnarverkamann.

 „Ég heyrði á samtal foreldra hennar þar sem faðir hennar segir að drengurinn verði að læra eitthvað. Og ég tek það til mín og fer að reyna að komast að einhvers staðar í læri. Ég byrjaði svo hjá einyrkja, Kristjáni Tromberg, og fór að læra bólstrun og hafði ekki skímu um það hvað ég væri að fara út í,“ segir hann en Hörður kláraði svo námið og stofnaði eigið fyrirtæki.  

DNA-próf sannaði faðernið

Á fullorðinsárunum hugsaði Hörður lítið um þessi faðernismál.

„Bjarki sonur minn rekur bílaverkstæði og inn kemur Ragna Fossberg með bílinn sinn í viðgerð. Þegar hún kemur að sækja bílinn kallar hann hana inn á skrifstofu til sín og segir henni söguna af grunsemdum fjölskyldunnar og þau verða sammála um að láta gera DNA-rannsókn,“ segir Hörður.

Gunnlaugur Jónsson Fossberg var myndarmaður og er Hörður nokkuð líkur …
Gunnlaugur Jónsson Fossberg var myndarmaður og er Hörður nokkuð líkur honum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sagði þeim að það væri engin spurning að Gunnlaugur Fossberg væri faðir minn. Þannig að við Ragna Fossberg fórum í Íslenska erfðagreiningu í nóvember 2019. Þá kom í ljós að líkurnar væru yfirgnæfandi á að mamma hennar og ég værum hálfsystkini sem deila föður. Mér fannst ágætt að fá að vita það,“ segir hann en rannsókn ÍE dugði ekki til þess að fá það lagalega staðfest að Gunnlaugur væri faðir hans. Einnig var tekið sýni hjá Jóhönnu Thorlacius, barnabarni Gunnlaugs, sem gaf sömu niðurstöðu.

„Þá var leitað til meinafræðideildar Landspítalans en þar fundust lífsýni úr dóttur Gunnlaugs, sem er þá nær mér í skyldleika en Ragna. Sýnið var orðið fjörutíu ára gamalt, en það dugði og líkurnar voru enn meiri. Það fannst líka sýni frá Pétri Hoffmann sem sýndi að hann gæti ekki verið faðir minn. Síðan fór þetta fyrir héraðsdóm og þá fékk ég þetta staðfest, fyrir um mánuði eða svo. Fossberg-fjölskyldan hefur tekið þessu vel,“ segir hann og eignaðist hann þar með nýja ættingja, níræður að aldri.

„Barnabörn Péturs Hoffmanns, systkinabörnin mín, voru mjög hjálpleg en þetta ferli var flókið. Það þurfti að stefna dánarbúum tveggja manna sem eru löngu farnir.“
Hörður lét í kjölfarið breyta nafni sínu í þjóðskrá og heitir nú Hörður Jón Fossberg Pétursson.

„Ég vildi ekki strika Pétursson út því ég hef borið það í níutíu ár.“

Hvernig tilfinning var það að fá þetta loks staðfest? Var þetta einhvers konar lokapunktur í sögunni?

„Já, það var það. Þetta var ekki svo erfitt því þessu var svo vel tekið af frænkunum og þeim armi. Við höfum hitt Rögnu Fossberg, Önnu Rögnu og Jóhönnu Margréti barnabörn Gunnlaugs og fleiri afkomendur hans.“

Að hafa ættfræðina rétta

Hittir þú einhvern tímann Gunnlaug?

„Nei. Hann dó árið 1949. En það munaði litlu í sjálfu sér. Árið 1947 var ég að vinna í verslun í Barmahlíð 8 og hinum megin við götuna í Barmahlíð 9 bjó Fossberg-fjölskyldan,“ segir Hörður sem segir Gunnlaug aldrei hafa reynt að hafa samband við sig, enda var tíðarandinn þá annar og ekki inni í myndinni að giftur maður gengist við barni annarrar konu.

„Stelpurnar hafa sagt mér að hann hafi verið afskaplega mildur maður.“

Hörður sem ungur maður.
Hörður sem ungur maður. Ljósmynd/Aðsend

Ertu eitthvað líkur honum?

„Bíddu nú bara við,“ segir Hörður og nær í tvær myndir; aðra af sér sem ungum manni og hina af Gunnlaugi, einnig ungum. Sterkan svip má sjá með þeim feðgum.

Hörður segist feginn að fá faðernið á hreint.
Hörður segist feginn að fá faðernið á hreint. mbl.is/Ásdís

Hörður segir það merkilegt að staðfesta loks faðernið, og það kominn á tíræðisaldur.

„Þetta er hálfgerð endurfæðing. Má maður halda skírnarveislu?“

Ítarlegt viðtal er við Hörð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »