Kolbeinn hugsar um framboð í Reykjavík

Kolbeinn Óttarsson Proppé hugsar sig um.
Kolbeinn Óttarsson Proppé hugsar sig um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, segist ætla að svara því á allra næstu dögum hvort hann gefi kost á sér í forval Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík. Hópur flokkssystkina hans hefur skorað á hann að gefa kost á sér í höfuðborginni.

„Ég tek ákvörðun á næstu dögum,“ segir Kolbeinn í samtali við mbl.is, en framboðsfrestur fyrir forvalið í Reykjavík rennur út næstkomandi sunnudag. „Ég er hrærður og upp með mér yfir þessum stuðningi, sem felst í áskoruninni. Þarna eru á blaði nöfn sem hafa verið lífið og sálin í Reykjavíkurfélaginu um langa hríð og ég tek mark á því þegar þau segjast telja þetta best fyrir Vg.“

Kolbeinn kvaðst auk áskorunarinnar einnig hafa hlotið fjölda skilaboða og símtala með hvatningu til sín um framboð. Hann segir að sér þyki mjög vænt um það allt, en hann vilji hugsa málið.

„Það er ekkert sjálfgefið að fara úr einu forvali í annað, hafi maður ekki náð tilsettum árangri, fyrir nú utan hitt að það er töluvert fyrirtæki að taka þátt í forvali. Ég hef legið undir feldi um mín mál síðustu daga, en ég kem undan honum og helginni með ákvörðun,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn hefur setið á þingi fyrir Reykjavík suður síðan 2016, en ákvað að reyna fyrir sér í forvali flokksins í Suðurkjördæmi á dögunum, þar sem hann sóttist eftir fyrsta sæti listans, en varð að gera sér 4. sætið þar að góðu. Við svo búið mátti heita ljóst að hann hyrfi af þingi og því birtu 20 atkvæðamenn flokksins í Reykjavík áskorun til Kolbeins um að gefa áfram kost á sér í borginni.

mbl.is