Könnun: Miðflokkurinn nálægt því að detta af þingi

Frá þingflokksfundi Miðflokksins. Flokkurinn er nálægt því að falla af …
Frá þingflokksfundi Miðflokksins. Flokkurinn er nálægt því að falla af þingi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Sama gildir raunar um Flokk fólksins, en sú staða er ekki ný. mbl.is/Hari

Miðflokkurinn er nálægt því að falla af þingi samkvæmt nýrri könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Flokkurinn mælist með 5,3% fylgi og hefur það dregist saman um meira en helming frá kosningum.

Stjórnarflokkarnir þrír bæta allir við sig fylgi frá síðustu mælingu. Vinsti-grænir mælast næststærsti flokkurinn með 15,2%, Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,8% og Framsóknarflokkurinn 11,1%. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 50,1%, en ætla má að það myndi skila ríkisstjórnarflokkunum um 33-34 þingsætum og þar með meirihluta.

Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn í könnuninni. Flokkurinn hefur jafnan mælst næststærstur í skoðanakönnunum á kjörtímabilinu, en fylgið dregst lítillega saman milli kannana og mælist nú 12,8%. Þá segjast 11,5% myndu kjósa Viðreisn, og 11,1% kjósenda hvorn flokk fyrir sig, Pírata og Framsókn.

Miðflokkur og Flokkur fólksins reka lestina, en 5,3% segjast myndu kjósa Miðflokkinn og 5,0% Flokk fólksins en það dygði báðum flokkum til þess að komast á þing.

Sósíalistaflokkurinn, sem mælst hefur yfir 5% fylgi í nokkrum nýlegum könnunum, fær hins vegar aðeins 4,1% fylgi í könnuninni og myndi það að öllum líkindum ekki nægja til þingsætis.

Könnunin var gerð dagana 8.-15. apríl og voru svarendur 892.

mbl.is