Smitrakning nær óvenjulangt aftur

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Áhyggjuefni er hve langur tími leið frá sóttkvíarbroti manns sem kom til landsins þar til hópsmitið, sem rakið er til þess, kom upp. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Það gefi tilefni til að óttast að veiran hafi fengið að grassera um hríð með tilheyrandi samfélagssmiti, eins og hann orðar það.

„Rakningin er erfið því það er liðinn svo langur tími og fólk er búið að vera á ferðinni,“ segir Víðir. Sjaldgæft sé að rakningarteymið sé að rekja saman samskipti svo langt aftur, en það hefur þó gengið ágætlega. Búið er að tengja smit sem greindust á leikskólanum Jörfa og önnur smit gærdagsins við veitingahús í borginni.

Kom áður en sóttkvíarhótelin voru opnuð

Sóttkvíarbrjóturinn kom til landsins frá Póllandi í lok mars. Það var stuttu áður en reglur um skyldudvöl á sóttkvíarhótelum, sem síðar voru dæmdar ólöglegar, tóku gildi og átti viðkomandi því að halda sóttkví heima hjá sér. Á öðrum degi sóttkvíar, þegar hringt var í hann, kom í ljós að hann var ekki þar sem hann sagðist myndu halda sig.

Smitrakningu vegna þess var lokið þegar skyndilega tóku að greinast smit tengd leikskólanum Jörfa í Hæðargarði í Reykjavík og hafa þau síðar verið rakin til sóttkvíarbrotsins. Maðurinn er ekki starfsmaður á leikskólanum, en virðist hafa einhver tengsl við hann segir Víðir án þess að vilja fara nánar út í það. Flestir þeirra sem hafa smitast á leikskólanum eru starfsmenn, en þó hefur eitt barn hið minnsta smitast. Von er á niðurstöðum úr sýnatöku annarra starfsmanna og barna síðar í kvöld.

Leikskólinn Jörfi verður lokaður alla næstu viku enda allir starfsmenn og leikskólabörn í sóttkví. Víðir segir öllum verklagsreglum hafa verið fylgt á leikskólanum, en aðspurður segir hann ekki hægt að segja til um hvort tilefni sé til að endurskoða verklagsreglur og starfsemi leikskóla í ljósi smitanna. Það verði sóttvarnalæknir að segja til um.

mbl.is

Bloggað um fréttina