Þrettán smit innanlands – átta utan sóttkvíar

Sýnataka vegna Covid-19 fer fram við Suðurlandsbraut.
Sýnataka vegna Covid-19 fer fram við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrettán kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Átta smit greindust utan sóttkvíar. „Þrátt fyrir að fimm af þeim hafi verið í sóttkví hafði hún staðið stutt yfir,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild. 

Af þeim þrettán sem greindust í gær tengjast a.m.k. tíu einstaklingar leikskólanum Jörfa við Hæðargarð í Reykjavík. Eru allir starfsmenn og nemendur skólans nú í sóttkví. Öllum börnum við skólann og foreldrum þeirra verður boðið að fara í skimun í dag. 

Sóttvarnalæknir og almannavarnir hvetja alla þá sem hafa umgengist starfsmenn eða börn á leikskólanum Jörfa síðustu viku að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem fullorðna. Einnig eru íbúar í næsta nágrenni leikskólans hvattir til að fara í skimun, ástæðan er mikil samskipti á milli fólks og krakkarnir eðlilega mikið á ferðinni.

Almannavarnir ítreka mikilvægi þess að þeir sem finni fyrir minnstu einkennum fari í sýnatöku. Einkenni Covid-19 geta verið mismunandi milli einstaklinga og sumir fá væg einkenni, en þau geta verið: hiti, hósti, andþyngsli, kvef, hálsbólga, beinverkir, höfuðverkur; sjaldgæfari einkenni eru ógleði, þreyta, uppköst og skyndilegt tap á bragð- og lyktarskyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina