Tíu starfsmenn smitaðir en þeim gæti fjölgað

Leikskólinn Jörfi í Hæðargarði verður lokaður út næstu viku enda allir starfsmenn og nemendur í sóttkví fram á föstudag. Vonast er til að skólinn verði opnaður á mánudag eftir viku en starfsemin gæti þó verið skert enda þurfa þeir sem greinast smitaðir að halda sig í einangrun í tvær vikur. Tíu starfsmenn hið minnsta eru smitaðir.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, segir að betri mynd fáist á útbreiðsluna á allra næstu dögum þegar niðurstöður úr sýnatöku starfsmanna og leikskólabarna liggja fyrir.

Hann segir öllum verklagsreglum hafa verið fylgt í skólanum, en að útbreiðslan sé áminning um mikilvægi þess að fólk fari gætilega og komi ekki í skóla finni þeir fyrir minnstu einkennum, hvort sem það eru starfsmenn, börn eða foreldrar.

Fjölskyldur þeirra barna sem eru í sóttkví eru það sömuleiðis og því hefur hópsmitið áhrif á systkini smitaðra barna sem eru í öðrum leikskólum eða grunnskólum. Ekki hefur verið talin þörf á að ráðast í hópskimanir meðal barna í öðrum skólum í hverfinu, svo sem grunnskólunum Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Hins vegar hefur samráð verið haft við skólastjórnendur og vandlega fylgst með stöðunni. „Ef það koma í ljós smit utan sóttkvíar hjá eldri nemendum þá að sjálfsögðu bregðumst við hratt og örugglega við því,“ segir Helgi.

mbl.is