Vill forgangsraða leikskólakennurum í bólusetningu

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, hefur komið þeim sjónarmiðum …
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við sóttvarnalækni að eðlilegt sé að leikskólakennarar séu bólusettir á undan öðrum kennarastéttum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir málefnaleg rök fyrir því að starfsfólki leikskóla verði forgangsraðað þegar kemur að áttunda hópi forgangsröðunar bólusetningar. RÚV greinir frá.

Starfsfólk leikskóla er í áttunda forgangshópi bólusetningar, rétt eins og starfsfólk á öðrum skólastigum. Í samtali við RÚV segir Haraldur að vegna þess hve erfitt sé að virða fjarlægðartakmarkanir á leikskólum og návígi milli starfsfólks og skólabarna sé mikið telji hann rétt að hópurinn sé fyrstur í röðinni innan þess hóps.

Hann hafi komið þessum sjónarmiðum skýrt til skila á fundi með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og vonist til að það verði niðurstaðan.

Fullorðnum Íslendingum er skipt í tíu forgangshópa er kemur að bólusetningum og ekki byrjað að bólusetja einn hóp fyrr en bólusetningu er lokið í þeim hópi sem á undan er. Sú hópaskipting er þó aðeins gróft skipulag og innan hvers hóps hefur verið forgangsraðað nánar. Þannig eru til dæmis allir í aldurshópnum 70-79 ára sagðir vera í sama forgangshópi, en þegar til bólusetningar kom var byrjað á elsta árganginum og svo farið niður eftir.

Ekkert væri því til fyrirstöðu að byrja á leikskólakennurum innan áttunda bólusetningarhóps, en ekkert hefur verið gefið upp um það.

Vita vonlaust er að halda fjarlægðartakmörkum á leikskólum. Starfsfólk leikskóla …
Vita vonlaust er að halda fjarlægðartakmörkum á leikskólum. Starfsfólk leikskóla hefur kallað eftir því að það fái forgang í bólusetningar fram yfir aðrar kennarastéttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is