Eiríkur leiðir Viðreisn í Norðausturkjördæmi

Sigríður Ólafsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson, frambjóðendur Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.
Sigríður Ólafsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson, frambjóðendur Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri, mun leiða lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust.  

Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi, skipar 2. sæti á listanum. Frambjóðendur voru kynntir á samfélagsmiðlum Viðreisnar í dag. 

Eiríkur er menntaður íþróttafræðingur. Hann var ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs árið 2002 og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs árið 2004 sem varð til með sameiningu sveitarfélaga. 

Eiríkur varð síðan bæjarstjóri á Akureyri árið 2010 og starfaði sem slíkur í átta ár. Í dag starfar hann sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

Sigríður er menntuð í uppeldis- og menntunarfræði, stjórnun og með PCC-vottun sem markþjálfi. Hún er búsett á Akureyri. 

Sigríður, sem ávallt er kölluð Sigga, starfaði í tæp tuttugu ár sem ráðgjafi og stjórnandi hjá Gallup/Capacent en stofnaði árið 2017 eigið ráðgjafafyrirtæki á Akureyri, Mögnum. Þar sinnir hún meðal annars markþjálfun, fræðslu og mannauðsráðgjöf að því er kemur fram í tilkynningu. 

mbl.is