Frumvarp sem skyldar fólk í sóttvarnahús

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin er reiðubúin til að taka ómakið af ríkisstjórninni og er tilbúin með frumvarp á sóttvarnalögum sem heimilar ráðherra að skylda fólk sem hingað kemur í dvöl í sóttvarnahúsi.

Þetta kom fram í máli Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þar sem hann spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um sóttvarnalög og hvað væri hægt að gera til að fylla upp í göt á landamærum og koma þannig í veg fyrir að kórónuveiran slyppi þar inn í landið.

Hann rifjaði upp atburðarásina í kringum reglugerð heilbrigðisráðherra þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi það ólögmætt að skylda komufólk frá ákveðnum svæðum í nokkurra daga dvöl í sóttvarnahúsi.

Logi sagði frumvarp Samfylkingarinnar byggjast á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. „Ég spyr því: Er hæstvirtur forsætisráðherra tilbúinn til að styðja slíkt frumvarp ef það kemur fram strax og er hún tilbúin til að hlusta áfram á sérfræðinga okkar?“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín benti á að þau smit sem við sæjum núna innanlands mætti rekja til aðila sem hélt ekki sóttkví við landamærin áður en áðurnefnd reglugerð tók gildi 1. apríl. Því væri erfitt að draga of miklar ályktanir um núverandi ráðstafanir út frá því tiltekna smiti.

Ekki hætt að hlusta á sérfræðinga

En það breytir því ekki að við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess hvernig við getum tryggt að það regluverk sem við höfum verið með á landamærum, sem er að mörgu leyti mjög skilvirkt og gott, þ.e. tvöföld skimun, krafa um neikvætt PCR-próf og sóttkví á milli, sé virt, því að í raun og veru snúast þessi smit ekki um fyrirkomulagið sjálft heldur að fólk fylgir ekki fyrirkomulaginu,“ sagði Katrín og bætti við að það væri mjög miður.

Hún sagðist ekki vera hætt að hlusta á sérfræðinga og hefði fundað síðast með sóttvarnalækni í morgun. Enn fremur hefðu mögulegar lagabreytingar eftir að dómur um að reglugerð heilbrigðisráðherra styddist ekki við lagastoð verið til skoðunar.

Sú vinna hófst í raun og veru um leið og þessi dómur féll. En eðli máls samkvæmt vildum við leita leiða innan gildandi lagaramma fyrst. Þær ákvarðanir, eins og allar aðrar í þessum faraldri, eru til stöðugrar endurskoðunar. Ég ætla ekki að segja til um það nákvæmlega hverjar lyktir málsins verða en ég get fullvissað háttvirtan þingmann um að markmið ríkisstjórnarinnar er að gera eins vel og við getum í því að kæfa niður þennan faraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert